Staðan á lungunum hans Björgvins var ekki góð í dag, hann mettaði mjög illa, þurfti meira súrefni þrátt fyrir hærri vatnslosandi skammta. Eitthvað varð að gera í þessu öllu saman, stefnan var ekki góð og fannst mér eins og við værum bara á leiðinni á gjörgæsluna í dag. Björgvin var líka farinn að sýna skrítin einkenni, detta aðeins út eins og hann á til að gera þegar álagið á líkama og sál er orðið of mikið.
Lagt var upp með að setja legg í hann og taka blóðprufur til að athuga með blóðgildi hans sem hefur verið of lágt í langan tíma. Einnig vildu læknarnir gefa honum blóð ef það blóðgildið reynist of lágt til að hjálpa honum við þessa vökvasöfnun sem er að hrjá hann.
Gjörgæslufólk var fengið til að setja legginn í hann og taka blóðið. Niðurstaðan úr prufunum var að blóðgildið hans var orðið betra en það var fyrir 10 dögum síðan, var 95 en var komið í 105, sem segir okkur það að hann er að framleiða blóð sjálfur með efnunum úr fæðunni sem hann fær í gegnum magasonduna. Það er mikill léttir að heyra það að þetta allt saman er að verða honum eitthvað til góðs. Því var blóðgjöfinni frestað og staðan tekin aftur varðandi hana á mánudaginn. Það er ekki ráðlegt að gefa blóð manneskju sem er að framleiða það að sjálfsdáðum, þá hættir sú framleiðsla í bili, best er að hafa þetta sem eðlilegast.
Björgvin fékk vatnslosandi lyf í æð og sýnir strax góð viðbrögð við því, pissar mikið og er strax að stynja minna. Einnig þarf hann ekki eins mikið súrefni til að halda mettuninni góðri. Þannig að þetta er allt á betri leið.
Vandamálið hjá okkur er að skipta yfir af vatnslosandi lyfjum í æð í töfluform. Að fá svona lyf í æð er miklu áhrifameira, virkar fljótar og sterkar. Þessi skipti eru vandmeðfarin og nú þarf að hugsa upp gott plan þar sem við erum búin að lenda tvisvar í því að þurfa að fara til baka. Nú þarf líka að hugsa um að Björgvin er að fá fullt af fæðu í magann og þá er kannski upptaka lyfjanna úr meltingarveginum öðruvísi en áður þar sem hann var alltaf með tóman maga.
Á morgun þurfum við að fá nýtt plan frá læknunum. Eins gott að það verði gott svo að við getum farið heim, Björgvin spyr á hverjum degi hvenær við ætlum eiginlega að fara heim í Svölutjörn 5.
Þetta var stressandi dagur, mamman var mjög áhyggjufull. Biðjum um betri daga framundan.
Ásdís og Björgvin Arnar
Saturday, October 27, 2012
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Mínar allra bestu óskir til ykkar Björgvins! Hugsa hlýtt til ykkar. Gangi ykkur vel.
Skvísurnar í Hrútafirðinum biðja ofsalega vel að heilsa ykkur og biðja líka um góða daga
Þú ert ofurmamma.
Bjarki
Post a Comment