Sunday, December 19, 2010

Sætabrauðsdrengurinn

Björgvin Arnar er ekki mikið fyrir sætindi, hann lætur það nægja að vera sjúklega sætur sjálfur. Það er sama hvað maður býður honum, ís eða súkkulaði, hann þakkar bara pent fyrir, nei þakka þér fyrir.

Hann er nýfarinn að vilja sleikjó, hann leggur hann svo frá sér í smá pásu en svo er spurning hvað hann meinar með því þegar maður sér sleikjóinn svona?

Wednesday, December 15, 2010

Sniðugasti strákurinn

Björgvin er mikill hugsuður og er ekkert að garga og öskra mikið, vill helst hlusta á tónlist og pústla eða mála, kubba í rólegheitunum.

En hann er líka mikil félagsvera og unir sér vel á leikskólanum með öllum krökkunum, honum finnst mest til Arons Inga koma, hann situr á móti honum í matartímanum og Aron passar alltaf að Björgvin sé með í öllum leikjum og að það sé allt í lagi með hann. Já það er sko satt að börnin finni margt á sér.

Þegar krakkarnir eru úti að leika, t.d. að róla, þá er Björgvin hrókur alls fagnaðar, puðrar eitthvað úti í loftið eða segir eitthvað og allir krakkarnir liggja í hláturskasti. Svona er þetta stundum inni líka og við matarborðið. Borða meira, tala minna! hahaha.

En hann er stríðinn og mikill húmor í honum, við getum stundum hlegið saman óralengi, algjörlega ómetanlegar stundir.

Björgvin var að hjálpa afa sínum að skreyta jólatréið okkar í dag, hér er útkoman, jólakúlur síðan ég var lítil sem dregur fram margar minningar.



Það er jólakaffi á leikskólanum á morgun, boðið er upp á heitt súkkulaði og piparkökur sem krakkarnir bökuðu og skreyttu, gerist ekki miklu jólalegra það! :)

Gleðilegan jólaundirbúning
Ásdís og Björgvin Arnar

Monday, December 6, 2010

Leikur

Björgvin er sjúkur í að vera úti að leika og fara á róló er toppurinn. Skemmtilegast er að róla, hann hlær svo mikið og dátt þegar hann fær að róla hátt, fær algjört hláturskast og segir svo "Mamma, það er gaman að hlæja".

























Veðrið er búið að vera svo dásamlegt undanfarið, maður man varla eftir svona stillum og hvað þá hér fyrir sunnan! Alltaf brjálað rok. Nú getur Björgvin farið út að leika á pallinum og er alsæll með það. Hefur líka mikið gott af því.




















Það er líka mikið sport að fara út að labba með mömmu með skólatöskuna sem Allý gaf honum í afmælisgjöf þegar hann varð 2 ára. Þetta er agalega flott og hafa sem mest dót í henni og kubbana tvo sem afi gaf honum í húsinu sem hann er að byggja þegar Björgvin var að hjálpa honum að vinna :)

























Björgvin er með hita, vonandi verður það ekkert til að tala um, krossum fingur!

Kveðja úr Svölutjörninni,
Ásdís og Björgvin Arnar

Saturday, November 27, 2010

Góðir tímar

Það er mikill sannleikur í orðunum Heima er best. Við Björgvin fluttum inn í húsið okkar í byrjun mánaðarins. Það er ekki hægt að lýsa því hvað það er gott að vera komin heim. Björgvin er svo ánægður hérna heima að hann vill ekki fara út, ekki fara á leikskólann, bara vera heima og leika.  Hann segir öllum að við eigum nýtt hús, mamma kaupa húsið, já hann er fréttamaður stundum.

Björgvin hjálpaði til við að pakka og var í essinu sínu að hafa kassana sem hús.




Mikið af dótinu hans var í kassa og er núna komið inn í skúr þar sem húsið hans er líka, stórt leiksvæði fyrir prinsinn og nýtur hann sín vel.


Afi er dreginn inn í hús að leika, hvað er ekki gert fyrir prinsinn! Þeir eru mestu krútt í heimi saman. Barasta ekkert eins sætt.

Björgvin hefur verið frekar frískur núna í 3 mánuði, það er ekkert dásamlegra, maður þorir varla að minnast á það við hræðslu á að það breytist. Hann hefur þroskast svo mikið og breytist með hverjum deginum. Það eru mikil  forréttindi að fá að fylgjast með honum og vera í kringum hann. Hann er svo hlýr og góður drengur, algjör hjartaknúsari.

Ekki er hann farinn að stækka ennþá samt, það er áhyggjuefni, en á meðan margt gott er að gerast þá heldur maður í þolinmæðina, hún þrautir vinnur allar, ekki satt? :)

Nú erum við búin að setja upp jólaljósin og ætlum að draga fram annað skraut á morgun, bæði jafn spennt fyrir jólunum.

Kveðja frá okkur Björgvini Arnari

Tuesday, November 23, 2010

Klipping

Björgvin var svo duglegur í klippingu, hann sat sjálfur alveg grafkyrr og hlustaði á tónlist. Hann var hæstánægður að fá sleikjó í verðlaun og svo var hann svo sætur á eftir!

Sunday, October 31, 2010

Afastrákur

Björgvin Arnar sér ekki sólina fyrir afa sínum, þvílíkur afastrákur. Ég held að það sé líka öfugt hjá afanum sko :)

Að sjá þá leika sér saman og tala saman, það er algjör unun, afinn leikur með honum úti í skúr, sest á gólfið og rúllar bolta heillengi.


Þegar amma er að fara þá spyr Björgvin, "amma, hvert ertu að fara? passa afa??" Það verður að hugsa vel um hann afa, það er á hreinu :)


En hann Björgvin er líka mömmustrákur, ömmustrákur og Allýjarstrákur. Um daginn þegar ég spurði hann hvort mamma ætti hann, já já en Allý líka :) Algjör rúsínubolla þessi strákur.

Björgvin er búinn að vera lasinn þessa vikuna, með hita og svo smá kvef, vonandi verður þetta ekki að neinu meira, við krossum fingur! :)

Kveðja
Ásdís og Björgvin Arnar



Monday, October 18, 2010

Venjulegur dagur

Ja hérna, hvað það er langt síðan eitthvað var skrifað hér síðast, það er eins gott að bæta úr því!

Björgvin fór í tölvusneiðmynd í seinustu viku og var niðurstaðan mun jákvæðari en í janúar, það gladdi okkar hjarta sem stöndum að honum og þetta gefur okkur von að við getum átt betri tíma framundan.

Þegar börn eru veik þá er í mörgu að snúast og passa upp á. Mér datt í hug að setja upp svona venjulegan dag í okkar lífi til að gefa ykkur smá innlit í daglega amstrið á okkar heimili.

Þegar við vöknum þá byrjum við á því að gefa Björgvini púst úr pústvél sem við fengum í Svíþjóð. Þar fær hann tvær tegundir lungnalyfja sem eru gefin í einu. Ströggl er að gefa honum það í langan tíma þannig að við reynum að telja upp í rúmlega hundrað, mjög hægt. Þetta gerum við líka á kvöldin áður en Björgvin fer að sofa.

En best er að telja þetta upp í tímaröð:
kl 8 - púst, lyf, vítamín og lýsi
Leikskólinn
kl 12 - amma Lalla nær í prinsinn og gefur honum fitu (frá næringafræðingi), stundum kemur Allý og tekur við.
Sofa
kl 14 - lyf
kl 18  - lyf
kl 19:30 - púst, lyf og vítamín, hormónasprauta og tannburstun

Mikil vinna er að gefa honum að borða, yfirleitt þá tekur það um það bið klukkustund í hvert skipti og má helst ekki hafa lengra en tvo tíma á milli til að hann fái nú nóga næringu. Já það er sko þolinmæðisverk, alls ekki má breyta matartímanum í neikvæða stund, allt verður að vera á góðu nótunum.

En prinsinn minn er sko duglegur, talar svo mikið og unir sér vel á leikskólanum. Hér erum við á leið til ömmu og afa í mat (eins og venjulega) með derhúfuna hans afa á höfðinu.

























Björgvin fékk lungnabólgubólusetningu um miðjan september og þökkum við fyrir hvern dag sem líður án flensu.

Áðan þegar hann var að fara að sofa og við vorum búin að fara með Faðir vorið, þá sagði hann "mamma, me me er í amen" :)

Kveðja frá Ásdísi og Björgvini Arnari

Tuesday, September 7, 2010

Boltaskóli

Nú er Björgvin Arnar byrjaður í boltaskólanum hjá Agga frænda. Það eru 30 krakkar sem koma saman í íþróttahúsinu og leika sér með bolta og fara í allskonar þrautir. Ekkert smá stuð og tónlist spiluð undir.

Mikill spenningur er í gangi yfir þessu og alltaf verið að spyrja hvenær boltaskólinn sé eiginlega. Aggi er náttúrulega líka í algjöru uppáhaldi, það er alveg ótrúlegt hvað Björgvin er ánægður með hann frænda sinn, eins og öll önnur börn eru líka, þannig að það er kannski ekkert ótrúlegt :)


Björgvin er frekar hress núna, ekki alveg nógu góður í önduninni (með ræmu í hálsinum og stynur smá) en nógu hress til að fara á leikskólann og þvílík hamingja hjá honum, hann er svo ánægður með krakkana og fóstrurnar. Allt verður svo miklu betra þegar hann kemst á leikskólann. Hann er alltaf fyrir hádegi á leikskólanum og hefur hann ekki þrek til að vera lengur, hann er mjög þreyttur og hvílir sig vel þegar hann kemur heim.

Síðast en ekki síst þá er hann duglegur að borða á leikskólanum, það má ekki gleyma því! :-D

Kveðja úr Svölutjörn
Ásdís og Björgvin Arnar

Thursday, August 26, 2010

Home sweet home

Við Björgvin komum heim í gær, mikið var það gott, alltaf er jafn gott að koma heim.

Samt verð ég að segja að dvölin á Barnaspítalanum er ekki alslæm. Allt fólkið sem vinnur þar, læknar, hjúkkur, sjúkraliðar og annað aðstoðarfólk er alveg dásamlegt upp til hópa. Öll aðstaða er til fyrirmyndar. Þetta skiptir allt miklu máli þegar maður er alltaf ein með Björgvin á spítalanum, fólkið er mikill stuðningur og svo má ekki gleyma ættingjum og vinum sem koma og heimsækja okkur!

Leikstofan er mest spennandi hjá Björgvini, sko fyrir utan babú bílinn sem hann vill ferðast á hvort sem það er á klósettið á stofunni eða fram í matsal eða á leikstofuna. Á leikstofunni vinna þrír leikskólakennarar og eru þær í miklu uppáhaldi hjá Björgvini. Honum finnst mest gaman að elda matinn en svo var að koma nýr bíll sem gengur fyrir rafmagni og hann stígur á bensíngjöfina og hann þýtur áfram.


Björgvin var svo ánægður þegar leggurinn í handleggnum var tekinn, reyndar ekki á meðan á því stóð en á eftir gat hann notað báðar hendur og farið í bað! vúhú.

























Nú erum við mæðgin heima og erum búin að borða morgunmat, mála mynd, kubba stórt hús og horfa á Latabæ. Ekki slæm dagskrá það.

Eigið góðan dag kæru vinir.
Ásdís

Monday, August 23, 2010

Kurteisi snúðurinn

Sæl veriði og nú er frekar langt um liðið síðan seinast, en mikið hefur verið að gera að koma öllu í rútínu eftir sumarfrí.

Það verður að segjast að Björgvin Arnar bræðir alla og þá sérstaklega hjúkkurnar hér á barnaspítalanum. Björgvin er með lungnabólgu og varð smá dramatík á laugardagnóttina þegar hann var að metta frekar illa að við komum hingað á spítalann með sjúkrabíl.

Björgvin þakkar fyrir allt sem honum er boðið eða þarf að gera við hann:
- Nú þarf ég að mæla þig aðeins - Já takk
- Viltu fá mjólk að drekka - Já takk
- Má ég gefa þér púst - Nei takk
- Voðalega ertu duglegur - Takk takk.

Kurteisara barn hafa þau bara aldrei vitað um, enda uppeldið alveg einstakt haha ónei, prinsinn minn er einstakur! :)

Nú er staðan sú að hann mettar vel á daginn og þarf því ekki súrefni en hann þarf það á nóttunni og er hann að fá stera og sýklalyf í æð og vonandi kemst hann yfir þetta fljótlega svo að við getum farið heim.

Alltaf er hann glaður og ánægður, nægjusamur er strákurinn og mikill gleðigjafi.

Ég var að hugsa það um daginn hvaða tilfinning er best, hvenær er það sem manni líður best og getur lokað augunum og notið stundarinnar. Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að það er þegar ég get verið heima hjá mér á kvöldin slappað af eða verið að gera eitthvað annað þegar barnið manns er sofandi inni í rúmi, hreint og fínt og mett og líður vel. Ekkert er betra í þessum heimi, svo einfalt er það.

Kveðja frá Barnaspítala Hringsins,
Ásdís og Björgvin Arnar

Thursday, July 8, 2010

Lítill listamaður.

Björgvin gerði fallegt listaverk á leikskólanum fyrir sumarfrí, þegar hann kom heim þá heimtaði hann að halda á því og sagði mömmu sinni að taka mynd af sér, hér er afraksturinn af því.



Þokkalegi snillingurinn, svo flott hjá honum og hann svo stolltur af listaverkinu sínu :)

Hann talar svo mikið, er alveg á útopnu, bætir við sig á hverjum degi, yndislegt að upplifa þetta tímabil hjá honum, breytist úr barni í krakka.

Litli kúturinn fékk lungnabólgu í seinustu viku og þurftum við að vera á spítalanum yfir nótt, fengum svo að fara heim en koma einu sinni á dag yfir helgina að fá sýklayf í æð. Sem betur fer jafnaði hann sig fljótt á þessu og varð ekki meira úr, enda erum við í sumarfríi og ætlum ekkert að vera inni á spítala! 7,9 13!!! :-D

Sumarkveðja
Ásdís og Björgvin Arnar

Sunday, June 27, 2010

Smjörálfurinn

Björgvin hefur ekki langt að sækja það að vera sjúkur í smjör, það er eiginlega það eina sem hann segir mmmm við þegar hann er að borða.  Um daginn heyrði ég mikið mmmm og fór að gá að honum og þá var hann með smjörvastykki og sleikti upp úr því smjörið. Núna er hann kominn með smá meira advanced aðferð, notar skeið í þessar framkvæmdir.


En við erum að vinna mjög markvisst að því að fita drenginn og er þetta því ekki neitt til að hafa áhyggjur af.

Smjörkveðja
Ásdís og Björgvin Arnar

Tuesday, June 22, 2010

Á leikskóla er gaman ...

Það sem er búið af júní hefur verið mjög skemmtilegur tími hjá okkur. Björgvin byrjaði aftur á leikskólanum og er að fíla sig í botn að leika við krakkana. Hann er alltaf fyrir hádegi á leikskólanum og svo nær Allý eða amma í hann og eru hjá honum þangað til mamman kemur heim úr vinnunni.

Við skelltum okkur til Stokkhólms í seinustu viku með ömmu og var veðrið geggjað þar. Björgvin var hjá pabba sínum á meðan við amma vorum að spóka okkur. Ég má til að leyfa ykkur að sjá þessa bóndarós sem við sáum í Bergshamra, ótrúlega falleg!


Björgvin er að þroskast svo mikið og talar og talar, hann segir manni alveg frá því sem hann gerði á leikskólanum og hverja hann hitti, þvílík breyting á rúmum mánuði. Hann er alveg sjúkur að fara í sund og biður um það á hverjum morgni, ég hef aldrei upplifað annað eins og að fara með hann í sund, þvílík gleði, hann er sko í essinu sínu.

Í dag kom hann stoltur heim með listaverk sem hann bjó til, meiri rúsínan, hann sagði mömmu sinni alveg hvernig hann fór að þessu öllu saman og vildi svo taka það með heim til ömmu og afa og sýna þeim þetta líka.



Hann lætur sko engan vaða yfir sig á leikskólanum, greinilega mjög ákveðinn ungur drengur :) Hann segir þeim bara til syndanna sem reyna að rífa eitthvað af honum eða gera eitthvað á hans hlut. Alveg ótrúlega gaman að fylgjast með þessu, sérstaklega þar sem hann hefur verið svo mikið einn.

Nú styttist í sumarfrí, þá verður gaman hjá okkur mæðginum!

Kveðja frá listamanninum og mömmu hans.
Ásdís og Björgvin Arnar

Tuesday, May 25, 2010

Gáfumenni mikið.

Sælt veri fólkið. Við erum glöð og sæl hér í Svölutjörninni, lífið getur ekki verið betra en þegar Björgvin Arnar er hress og frískur. Það gleður hjartað mikið að sjá hann lifna við og þroskast, talar og talar og stríðir öllum út í eitt, sérstaklega Agga frænda, það er skemmtilegast.

Við vorum í grillboði hjá Elvari frænda þegar Björgvin lá í mestu makindum og las Stafsetningarorðabókina með miklu áhuga.



Björgvin er mjög duglegur að vera án bleiu, kemur varla slys fyrir. Hann reyndar sefur alltaf með bleiu en það er svo næsta skref. Sjáum til hvernig honum gengur að vera bleiulaus á leikskólanum. Já hann er kominn í aðlögun á leikskólanum, aftur! Enda var seinasta aðlögun í janúar!


Hér er prinsinn með eldrautt nef eftir heiftarlegt fall fyrir utan hjá ömmu og afa í gær, sprakk vör og alles, það var mikið sjokk fyrir alla fjölskyldumeðlimi. En hann harkaði þetta af sér og varð glaður á ný.

Krúttkveðja til ykkar.
Ásdís og Björgvin Arnar

Friday, May 14, 2010

Sjálfur!

Björgvin Arnar er búinn að þroskast heilmikið undanfarið og er farinn að vilja gera allt sjálfur, sem krefst mikillar þolinmæði hjá móðurinni, vægt til orða tekið. Hann vill bursta tennurnar, fara i skónna, labba niður stigann og upp hann sjálfur, það mætti lengi telja.

Við fórum út að hjóla í gær og komum við hjá Hrund og fengum að leika í húsi stelpnanna hennar þar sem enginn var heima. Björgvini fannst þetta vera algjör konungshöll.

























Honum fannst rokið þó alltof mikið á leiðinni heim, hann hefur pottþétt verið með 100% súrefnismettun á leiðinni :)




Björgvin fór í klippingu í dag, verð nú að sýna ykkur mynd af honum, hann er algjör gæi og var svo duglegur í klippingunni og svo fór hann í sund með mömmu sinni og ömmu. Það er langt síðan ég hef séð hann svona rosalega glaðan og ánægðan, honum fannst geggjað í sundi og er alltaf að biðja um að fá að fara aftur.

Knús frá Svölutjörn
Ásdís og Björgvin Arnar

Saturday, May 8, 2010

Sumargjöfin

Björgvin Arnar fékk fyrsta hjólið sitt í sumargjöf í gær frá mömmu sinni. Vá hvað hann var montinn, hann gat varla beðið eftir því að afi setti það saman, hjálpaði afa sínum með skrúfjárnið og bauðst til að lána honum gleraugun sín þar sem afi hafði gleymt sínum heima, dúllan!


Svo á hann hjálm í stíl og er algjör töffari. Nú er bara að fara út að hjóla í góða veðrinu :)

Björgvin er annars hress og kátur, krafturinn í honum er mikill og hann er segir sína meiningu óspart þessa dagna, vægt til orða tekið! :)

Sumarkveðja
Ásdís og Björgvin Arnar

Sunday, May 2, 2010

Einn sentímetri er alveg heill hellingur!

Sælt veri fólkið.

Við erum alla vega mjög sæl og glöð hér á Svölutjörninni. Björgvin er hress og kátur og er búinn að dafna vel seinustu viku. Hann hefur bætt einum sentimetra við sig og var það mikil hamingja þegar mæling gaf 79 cm en ekki bara 78 eins og það hefur verið allt síðast liðið ár. Hann lítur mjög vel út og er að þroskast mikið. Orðaforðinn hans eykst með hverjum deginum, nú segir hann ís, kyssa, fram, peysa, inn, hlægja, dansa, Masi. Já eða bara þetta helsta :)


Aðalsportið núna er að fara út með bílinn sinn og rúnta um hverfið. Við fórum í heimsókn til Agga, sem by the way er í algjöru uppáhaldi hjá Björgvini, hann gerir ekki annað en að biðja um að fara til hans, þvílíkt stuð.


Björgvin fór að leika í garðinum hjá Agga frænda, fann þar húsið sitt og var alsæll að leika úti. Þar var rennubraut og sandkassi, mjög skemmtilegt. Hulda María kom út að leika við hann, þau hlupu um pallinn og grínuðust.


Við fórum á róló með ömmu í gær, mikið var gaman að róla og renna, það er sko skemmtilegast í heimi. Björgvin fílaði sig alveg i botn :)

Knús á ykkur
Ásdís og Björgvin Arnar

Friday, April 23, 2010

Gleðilegt sumar!

Sumarið er víst komið þó að maður finni nú ekki fyrir því, það er kalt úti og svo snjóaði í dag smávegis. En þetta hlýtur að koma hjá okkur á næstu vikum.

Björgvin er búinn að vera hress síðan hann náði sér upp úr barkabólguvírusinum sem hann fékk í seinustu viku. Hann er orkumikill þó svo að hann borði ekki mikið, hann kúgast og kúgast á öllu sem honum er boðið en hann getur samt hrúgað í sig snakki! Þetta er hulin ráðgáta og ekki getur það staðist að hann sé að spila á móður sína, þessi engill! :)

Seinasta laugardag þá gerðist það að hann byrjaði að herma eftir mömmu sinni þegar hún sagði honum að segja eitthvað ákveðið orð, þetta hefur hann aldrei gert áður, þvílíkt þroskamerki, nú segir hann átta, sími, blár, kinn, haka, enni, nebbi, vatn og margt fleira, ótrúlegt hvað orðaforðinn hans hefur vaxið á seinustu viku.

Amma Olga og Nói komu í heimsókn til okkar um daginn og var mikil ánægja með það hjá litla prinsinum, hann var sko í essinu sínu og svo þegar amma varð öskuteppt þá fengum við að sjá þau aftur.


Sjá bræðurna saman, svo sætir, Björgvin er svo ánægður með stóra bróðir sinn að gleðin skín úr andlitinu á honum og hann vill helst að Nói haldi á sér og tali stanslaust við sig.



















Við fórum svo með ömmu og afa að sjá Skoppu og Skrítlu á sumardaginn fyrsta í Borgarleikhúsinu. Þetta var fyrsta leikhúsferðin hans Björgvins og var hann mjög duglegur og hélt athyglinni allan tímann. Skoppa og Skrítla voru svo ánægðar að sjá hann og mundu alveg eftir honum eftir að þær komu að heimsækja hann á spítalann um daginn.


Björgvin var svo ánægður með þetta, vildi fara til þeirra alla sýninguna og svo hló hann alveg upphátt af sumum atriðunum, þetta var algjör snilld.

Gleðilegt sumar elskurnar og takk fyrir veturinn.

Ásdís og Björgvin Arnar

Tuesday, April 13, 2010

Dulmál

Nú erum við búin að vera heima í hálfan mánuð og hefur gengið vel hingað til. Reyndar er Björgvin Arnar með hita í dag og er ég að bíða eftir hvað gerist með hitaskömmina áður en ég bruna með hann í bæinn, en vonandi nær hann að hrista þetta af sér.

Við höfum verið mikið heima við en um daginn skelltum við okkur með Nínu og Kristjáni Loga á inni leikvöll upp á velli þar sem hægt er að renna sér og skríða inn í leikhluti. Það sló þokkalega í gegn.


Björgvin er heima allan daginn á meðan mamma hans fer í vinnuna, hann er annað hvort hjá ömmu sinni (afi kíkir stundum við) eða hjá Allý. Já við erum sko heppin að eiga góða að. Þegar mamman kemur heim úr vinnunni þá langar hann að fara út og segir:

mamma gilligilli skó, mamma burr, amma og afi hæ

þýðist sem - mamma ég vil fara í skó og út í bíl og keyra til ömmu og afa :)

Er hægt að vera meira krútt??



Læknirinn vill halda honum heima út maí alla vega og ætlar leikskólinn að halda plássinu fyrir okkur þangað hann er tilbúinn að koma aftur.

Risaknús úr Reykjanesbæ
Ásdís og Björgvin Arnar


Thursday, April 1, 2010

Útskrifuð

Við vorum útskrifuð á sunnudaginn, þvílík dásemd! :)

Við fórum svo í eftirskoðun hjá Gylfa í gærmorgun og leist honum mjög vel á Björgvin, var í raun hissa hve vel hann er búinn að ná sér miðað við hvernig ástandið var.

Nú ætlum við að njóta þess að vera heima og slappa af. Markmið næstu mánuði er að hafa Björgvin sem mest heima og láta hann hvílast vel og nærast vel, rjómi og olía út í alla fæðu, já það bara þýðir ekkert annað. Nú ætlar hann að verða stór og sterkur :)

























Hérna erum við komin á rúntinn, mikil gleði í bílnum þegar Skoppa og Skrítla eru á sem Kristján Logi gaf honum.

Gleðilega Páska öll sömul.

Ég vona að sænsku vinir okkar eigi páskaegg frá Ice! :)

Knús og kram
Ásdís og Björgvin Arnar

Saturday, March 27, 2010

Alveg án súrefnis

Í dag, laugardag, þá erum við komin heim í dagsleyfi, förum sem sagt á spítalann í kvöld og verðum yfir nóttina og fáum svo að fara heim aftur á morgun.

Björgvin hefur verið meira og minna án súrefnis síðan á miðvikudaginn en honum vantaði mikið þol, þannig að þegar hann hleypur eða grætur þá sígur hann fljótt í súrefnismettun, en þolið eflist með hverjum deginum.

Skoppa og Skrítla komu að heimsækja vin okkar í stofunni við hliðina seinustu helgi og þær kíktu á Björgvin í leiðinni, hann skildi ekkert í þessu, var að horfa á þær í sjónvarpinu þegar þær birtust allt í einu. Hann var svo feiminn að hann þorði varla að horfa á þær!

Mikið er gott að vera heima hjá sér með prinsinn sinn. Það þarf ábyggilega mikið að ganga á þegar manni finnst það mikil forréttindi að geta verið heima hjá sér með barnið sitt. Við höfum nú verið meira en helming af þeim tíma sem liðinn er af árinu á spítala. Nú ætlum við að útskrifast af spítalanum og fara að snúa þessu við.

Í dag ætlum við í pönnsur til Nínu og svo förum við aftur á spítalann í kvöld. Ef allt gengur eftir þá útskrifumst við á morgun, krossum fingur! :)

Knús og kram
Ásdís og Björgvin Arnar

Monday, March 22, 2010

Hress sykurpúði

Björgvin leikur á alls oddi á spítalanum, heillar alla upp úr skónum eins og honum einum er lagið. Hann er svakalega hress og lungnamyndin kom mjög vel út í dag. Hann þarf ennþá súrefni samt en hann hlýtur að hrista þetta af sér fyrir páska.

Tinna Elíza kom að heimsækja hann á sunnudaginn, hann var ekkert smá ánægður með þetta og fóru þau á rúntinn saman, Tinna bauð líka upp á grænan ópal sem var alveg að slá í gegn hjá Björgvini :)


Nína kom til okkar í dag og var knúsuð bak og fyrir, Björgvin var svo ánægður með hana, vildi bara sitja hjá henni og segja henni sögur.


Hér vorum við mæðgin að kubba turn og Björgvini fannst mikið stuð að henda öllu um koll og lá í hláturskasti.

Vonandi fer þetta allt að koma hjá honum, læknarnir vilja halda honum í tvo sólarhringa á spítalanum eftir að hann getur losnað við súrefnið, nú verður hann bara að drífa í þessu :)

Knús frá barnaspítalanum
Ásdís og Björgvin Arnar

Friday, March 19, 2010

Hænuskref

Það er nú varla að maður þori að tala um batamerki án þess að hræðast afturför en ég held að það sé óhætt að segja að Björgvin hafi verið hressari í dag :)

Björgvin borðar meira og er þróttmeiri en seinustu daga, hann er glaður og kátur og stríðir mömmu sinni óspart, það hlýtur að vera allt merki um skref fram á við!

Hann vildi rúnta í babú babú bílnum og var farið með hann nokkra kílómetra í morgun, út um allan spítala, gang eftir gang.


Takið eftir að aldrei er langt í pelann sem er fullur af næringadrykk með fullt af kaloríum.

Nú á bara að bíða og taka stöðuna á mánudaginn, þá verður tekin lungnamynd og rætt um næstu skref, þá er bara eins gott að Björgvin verði búinn að sýna mikinn bata.

Krossum fingur og vonumst til að helgin verði góð.

Knús og kossar
Ásdís og Björgvin Arnar

Wednesday, March 17, 2010

Allt í hershöndum

Björgvin hræddi næstum því líftóruna úr mömmu sinni i gær þegar hann fór að hafa verulega öndunarerfiðleika.  Við sátum frammi í matsalt í mestu makindum þegar hann byrjaði að haga sér óeðlilega, brjóstkassinn gekk upp og niður og augun hálflokuðust.

Mikið af læknafólki tókst að koma honum í stöðugt ástand og síðan vorum við flutt á gjörgæsluna, eina ferðina enn. Læknarnir vita ekki alveg hvað er best að gera í stöðunni en þeir eru að stúdera alla möguleika ef honum fer ekki að batna verulega á næstu dögum.

Við komum svo aftur á deildina í dag þar sem nóttin gekk vel og dagurinn hefur verið góður. Pabbi hans kom heim í gær og ætlar að hjálpa okkur að koma honum til heilsu.


















Þessi mynd var tekin áðan, Björgvin orðinn syfjaður og að fara að leggja sig.

Ég vona svo innilega að ekki verði fleiri svona óvænt uppákomur, það er nóg komið og nú má batinn koma hratt og örugglega.

Takk fyrir alla póstana, sms-in, heimsóknirnar og hlýjar hugsanir!
Knús til ykkar allra.
Ásdís og Björgvin Arnar

Tuesday, March 16, 2010

Skref fram á við

Jæja við komumst á almenna deild í gær eftir sólarhring á gjörgæslunni. Björgvin slapp við öndunarvél þar sem hann brást vel við lyfjunum. Hann er mjög slappur ennþá, hefur lítið þrek en er rosalega duglegur eins og alltaf.

Við fórum í smá stund á leikstofuna í morgun og eftir klukkutíma vakandi þá þurfti hann að leggja sig.


Hér er hann á leiðinni á leikstofuna í vagninum.


Hann eldaði mat handa mömmu sinni, kjötbollur með ristabrauði og svo var melóna í eftirrétt, mimmm þvílíkt lostæti :)

Læknarnir segja að hljóðið í lungunum sé betra þannig að þetta er allt á rétt leið hjá okkur.

Knús frá Barnaspítalanum
Ásdís og Björgvin Arnar

Sunday, March 14, 2010

Babú babú babú

Við fórum heim í helgarleyfi með súrefni og mónitor meðferðis, það er ekki frásögufærandi en að það gekk ekki betur en svo að Björgvin varð mjög slæmur í morgun, átti erfitt með andadrátt, og við fórum með sjúkrabíl inn á Barnaspítala. Við vorum færð inn á bráðamóttöku og blóðprufur teknar og þegar niðurstaðan kom úr þeim þá vorum við sett á gjörgæslu og við verðum þar í nótt.

Þetta kallast að taka tvö skref aftur á bak og á morgun ætlum við að taka skref áfram :)


















Hérna erum við mæðginin að grínast eða kannski er betra að segja að Björgvin sé eitthvað að stríða mömmu sinni þarna, algjör grallari!

Ásdís og Björgvin Arnar

Friday, March 12, 2010

Hóst hóst hóst ...

Við erum enn hér á Barnaspítalanum í góðu yfirlæti hjá læknum og hjúkrunarfólki. Björgvin er með svo mikið slím ofan í sér að það liggur við að maður kafni við að heyra hann hósta. Við fáum sjúkraþjálfara til okkar þrisvar á dag til að banka hann og losnar mikið af slími við það.

Ástæðan fyrir þessu er að hann var svo viðkvæmur í lungunum eftir lungnabólguna í janúar og þegar verið er að krukka svona í öndunarveginum þá bregst hann við með slímmyndun. Hann fær púst á tveggja tíma fresti og er orðinn þokkalega þreyttur á þessu öllu saman.

Við lyftum okkur upp með því að fara á leikstofuna og leika með dótið. Björgvini finnst skemmtilegast að elda matinn og hann lagðist inn í hillu og lagði sig á meðan maturinn mallaði í pottunum.

Við erum einnig búin að fá marga góða gesti til okkar og höfum náð fáum á mynd en hér kemur myndasyrpa með nokkrum þeirra :)


Sunna er í heimsókn frá Svíþjóð og kíkti til okkar í heimsókn. Mikið var nú gaman að sjá hana.


Amma og afi komu náttúrulega til okkar, ekki að spyrja að því og við fórum á röltið og Björgvin keyrði löggubílinn út um allt sjúkrahús.


Ragnhildur Sara og Björgvin horfðu saman á Latabæ og fengu sér smá snakk með, hvað? maður fær nú allt sem maður vill þegar maður er á spítala! :)


Björgvin vill alltaf að mamma sofi hjá honum og veri hjá honum á meðan hann er að sofna. Auðvitað gerir hún það! Ekkert annað er í stöðunni en að kúra við prinsinn sem er uppgefinn eftir stanslaust hóstarí.

Við fáum kannski að fara heim á morgun í leyfi með súrefni með okkur, vonandi rætist það.

Við viljum óska Óla bróður/frænda í Noregi innilega til hamingju með afmælið í dag, afmælisknús á þig!

knús og kram
Ásdís og Björgvin Arnar

Saturday, March 6, 2010

Þriðja aðgerð á öndunarvegi lokið

Það er nú bara þvílík hamingja hér á bæ og mikill léttir að þessari aðgerð er lokið og gekk vel.  Björgvin er búinn að vera heima síðan við komum heim af spítalanum 2. febrúar og hafa mamma og pabbi og Allý bjargað okkur alveg og hjálpað mér að hugsa vel um hann og halda honum frískum. Það sýndi sig svo að þetta margborgaði sig, hann var hress og frískur þegar kom að aðgerðinni.

Grísk-sænski skurðlæknirinn var alsæll með árangurinn, hann sá svo til þess að íslenski læknirinn fékk góða kennslu og ætlar hún að framkvæma næstu tvær aðgerðir hér heima, í vor og svo seinni í haust.

Það kom upp smá óhapp í aðgerðinni, vélin sem dældi vökvanum í æð bilaði og dældi 900 ml í staðinn fyrir 100 ml. Þetta var frekar óheppilegt þar sem Björgvin á alltaf vandamál með mikinn vökva í lungum og svo er þetta auka álag á hjartað en þetta uppgötvað strax og brugðist var við þessu þannig að honum varð ekki meint af og maður getur þakkað fyrir það að þetta var ekkert lyf heldur bara vökvi.

Sama dag og aðgerðin var framkvæmd þá var hann mjög hress og settist upp og vildi horfa á mynd, því vorum við færð niður á Barnaspítala þar sem gjörgæslan var alveg full. Björgvin var ekkert óhress með að fá að fara í babú babú bílinn :)


Í gær þá var hann orðinn aðeins verri í önduninni, það var aukið við adrenalín púst og honum gefnir sterar en svo þurfti hann á smá súrefni að halda, það er mjög algengt að svona viðbrögð við aðgerðinni komi fram meira en sólarhring seinna.  Hann er svo viðkvæmur í öndunarfærunum.



Hann var samt betri í önduninni í morgun þó svo að hann sé ennþá með súrefni. Vonandi losnar hann við það á morgun svo að við getum farið heim á mánudaginn. 

Öndunarvegurinn verður búinn að gróa vel eftir viku og þá verður hægt að finna og sjá hvernig þetta hefur áhrif á hann, vonandi verður þetta allt annað líf og hann fái meiri kraft og geti borðað meira af fastri fæðu.

Björgvin verður svo alveg heima fram yfir páska og þá fer hann kannski á leikskólann fyrir hádegi, bara aðeins til að sjá krakkana og komast aðeins út af heimilinu.

Knús og kram frá Barnaspítalanum.
Ásdís og Björgvin Arnar