Saturday, October 31, 2009

Stórmerkilegur atburður

Við mæðginin fórum í Ikea í gær með Sunnu og stelpunum hennar. Megin ástæðan fyrir ferðinni var að láta taka myndir af krökkunum hjá ljósmyndara sem stillir sér upp í Ikea og býður upp á ódýra ljósmyndun. En Björgvin var ekki alveg á því að láta taka mynd af sér, fylltist mikilli skelfingu og grét og grét. Það var eins og að hann héldi að nú værir einhver skrítinn læknir þarna á ferð sem yrði alveg ægilega vondur við hann. En það náðust brilliant myndir af systrunum og ein mynd náðist af krökkunum á meðan við biðum eftir myndatökunni. Takk fyrir okkur Sunna!


















En það stórmerkilega er að Björgvin pissaði í koppinn sinn í fyrsta skipti í morgun, vúhú. Áður fyrr hefur hann bara verið að æfa sig á koppinum og á barnasetunni á klósettinu en ekkert hefur gerst fyrr en nú.

























Honum fannst þetta alveg stórmerkilegt og var dálítið montinn með sig eftir að hafa verið hrósað og knúsaður. Svo skellti hann sér í bað í til að slappa eftir allt þetta erfiði ;)


















Það skemmtilega er að þetta náðist á myndband og hefði ég viljað pósta því hér en veit ekki alveg hvernig það er gert, læt það flakka ef ég finn út úr því.

Kram
Ásdís og Björgvin

Tuesday, October 27, 2009

Hr. Myrkfælinn

Allt í einu fór Björgvin að verða myrkfælinn, hann þorir t.d. ekki einn fram á morgnana ef það er slökkt og ef hann hættir sér fram þá hleypur hann á harðaspretti til baka skríkjandi. Einn morguninn þá vaknaði hann frekar snemma og fór fram en kom fljótt til baka og sofnaði aftur (mömmunni til mikillar gleði), var sko ekkert að hætta sér fram þó svo að löngunin eftir sjónvarpsglápi sé mikil! :)


Sunday, October 25, 2009

Loksins kom flensusprautan

Mikið hefur verið um að vera hjá okkur síðastliðnar vikur og höfum við fengið góða gesti til að vera okkur innan handar og bara félagsskapur. Mamma var hjá okkur í rúma viku, hjálpaði okkur á spítalanum og svo hér heima líka. Hér er mynd af henni á heimferðardegi.
























Þegar mamma checkaði sig út af hóteli Ásdísar þá kom Nína til okkar og tók við vaktinni :) Hún var í vinnuferð og var hjá okkur í tvær nætur. Við fengum Magnús Kristinn í mat til okkar og fórum svo út að borða hitt kvöldið. Björgvin er náttúrulega alsæll með allar heimsóknirnar en skilur ekkert í því þegar allir eru farnir, hvað gerðist eiginlega??

















Björgvin fékk svo flensusprautuna á föstudaginn, sem betur fer, ég var alveg orðin taugaveikluð yfir þessu, sérstaklega að heyra um hve margir eru búnir að fá flensuna á Íslandi sem við þekkjum. Þetta var kærkomið og nú getur maður aðeins andað léttar.

Við höfum ekki fengið dagsetningu ennþá yfir næstu aðgerð en stefnan er sett á seinni partinn í nóvember til að ná einni í viðbót fyrir heimferð um jólin.

Við finnum ekki mikinn mun á Björgvini ennþá eftir aðgerðina, vonandi mun það nú samt koma. Það er lágmarkskrafa að finna árangur eftir allt þetta erfiði.

Ég verð að láta eina mynd fylgja með af henni Lindu massa sem beyglar hnífapör hvert sem er farið með hana að borða, hva er ekki læknastál í þessu dóti?? :)

















Haustkveðja frá Stokkhólmi
Ásdís og Björgvin Arnar

Saturday, October 17, 2009

Fær allt sem hann vill.

Við erum búin að vera heima alla vikuna, mest að slappa af og láta Björgvin vera heima í rólegheitum til að jafna sig eftir aðgerðina. Hann er allur að koma til og er öndunin orðin eins og áður en hann fór í aðgerðina, vonandi mun hún breytast meira til batnaðar svo að maður finni mun eftir aðgerðina.


















Björgvin er búinn að vera í góðu yfirlæti hjá mömmu sinni og ömmu, fær allt sem hann vill, eða alla vega svona næstum því en mest vill hann fá að horfa á sjónvarpið, þvílíkur sjónvarpsfíkill sem þessi litli snáði er orðinn.

























Við skruppum aðeins út í búð í gær og stoppuðum í dótabúð og Björgvin fékk að velja sér leikfang þar sem hann er búinn að vera svo rosalega duglegur í þessu öllu saman, hann valdi sér flugvél.

























Ef Björgvin heldur áfram á þessari braut þá mun hann fara á leikskólann á mánudaginn, þar sem hann er kominn með hundleið á okkur og vill fara að leika við krakkana. Björgvin tók þessa mynd af mömmu sinni í gær, læt hana fylgja með til gamans :)



















Þangað til næst, hej då :)

Tuesday, October 13, 2009

Home sweet home!

Björgvin var ekki að metta nógu vel í nótt því var ég alveg viss um að við fengjum ekki að fara heim í dag en það var tekin röntgen mynd af lungunum hans og allt kom vel út þannig að þá hentumst við heim í einum grænum enda ekki eftir neinu að bíða :)

Það er svo sannarlega mikið gleðiefni að vera komin heim til okkar. Björgvin heimtaði að fá að horfa á Brúðubílinn og sat svo stjarfur í stólnum sínum yfir söngnum í Lilla litla.

























Mamma var ekki lengi að drífa sig í þvottinn, mikið er gott að hafa svona þvottakonu hjá sér, allt fer á færibandi af snúrunni inn í skáp, ekki amalegt það.



Nú er búið að gefa lyfin, púst og tannbursta og litli minn er kominn upp í rúm að sofa í hausinn á sér, enda mjög þreyttur eftir svefnlítinn dag þar sem læknirinn þarf náttúrulega alltaf að stinga inn nefinu þegar hann er nýsofnaður.

Við þökkum ykkur fyrir öll fallegu kommentin og að hugsa til okkar, það er okkur mikils virði!

Knús til ykkar.
Ásdís og Björgvin Arnar

Monday, October 12, 2009

Heim á morgun??

Dagurinn í dag var góður, við byrjuðum á því að setja bjútíbolluna í bað, ekki veitti af eftir allt sem gengið hefur á undanfarna daga.

























Mamma kom til okkar í dag, Björgvin var alsæll að sjá ömmu sína og hafa einhvern í viðbót til að dekra við sig, það er sko ekki verra.















































Björgvin var duglegur að borða í dag og er að fá sterapúst á 4 tíma fresti og fær sýklalyf í æð. Á morgun ætlar læknirinn að skoða ofan í kokið á honum og ákveður út frá því hvort við megum fara heim. Við erum sko að vona að við fáum að fara heim á morgun :) Þá verður hátíð í bæ!

Kveðja frá Astrid Lindgren
Ásdís og Björgvin Arnar

Sunday, October 11, 2009

Fjörkálfur

Björgvin er svolítill fjörkálfur núna, æðir um allt sjúkrahús og talar við fólkið og vefur hjúkkunum um fingur sér. Maja er búin að vera hjá okkur alla helgina og Sunna kom í heimsókn í gær. Linda og Brynhildur komu í heimsókn til okkar í dag. Það er gott að eiga góða að!


















Björgvin syngur stubbalagið og dillar mjöðmunum, litli stubburinn minn. Hann er svo glaður þó svo að hann sé skeptískur þegar hjúkka eða læknir kemur við hann þá er hann fljótur að ná upp gleðinni aftur. Hann getur verið svolítið frekjutrítill og vill fá Nóa Kropp í hvert mál, sem hann náttúrulega fær :)


















Pabbi hans Björgvins var hjá honum í nótt svo að við Maja gátum farið og fengið okkur almennilegt sushi, mmm það var svo gott, Maja fær líka svo sjaldan austurlenskan mat í Kína hahahaha.


















Björgvin þarf súrefni þegar hann sefur og fær adrenalín púst á 4 tíma fresti. Það er fylgst vel með honum og svo hittum við aðalsérfræðinginn sem framkvæmdi aðgerðina á honum á morgun.

Vonandi fer þessari dvöl að ljúka hér á sjúkrahúsinu. Mamma mín kemur til okkar á morgun, það verður meiriháttar. 

Bless í bili,
Ásdís og Björgvin Arnar

Saturday, October 10, 2009

Fram fram fylking :)

Litli strákurinn minn er kominn af gjörgæslu og er miklu hressari í dag en í gær. Hann er sjúkur í að horfa á Stubbana og gargar ef hann fær ekki nógu mikla athygli, þannig að það er mjög góð vísbending að allt sé á réttri braut :)

Hér er mynd af honum, tekin á símann minn.


Fram og til baka

Litli dúllurassinn minn þurfti að fara aftur á gjörgæslu í gærkvöldi, hann átti smá erfitt með andardrátt, svitnaði svo mikið bara við að anda, hann fékk meira af sterum í æð og leið strax betur, en hann er ennþá á gjörgæslunni, kemst vonandi upp á dagdeildina í dag.

Maja vinkona er hjá okkur og Björgvin er alsæll með hana, kallar hana Adda eins og flesta sem hann þekkir ekki nafnið á, hann bjargar sér bara, ekkert að hafa fyrir því að læra önnur nöfn :)

Við Maja fórum heim í gærkvöldi og var pabbi hans hjá honum í nótt.

Kram
Ásdís og Björgvin

Friday, October 9, 2009

Öndunarvegur víkkaður

Aðgerðin tókst vel í gær, læknirinn náði þó ekki að nota laser eins og til stóð þar sem þetta var svo nálægt raddböndunum en hann notaði blöðru sem hann blés upp og það eru 4 hnífar á henni sem skáru í örvefinn. Læknirinn var frekar ánægður með þetta og sagðist hafa getað víkkað öndunarveginn um 1 mm sem er mikið í svona kríli :)

Björgvin er kominn af gjörgæslu en þarf að vera á spítalanum í nokkra daga, hann þarf að fá sýklalyf í æð og svo frétti ég hjá hjúkkunum að læknirinn hans vill skoða kokið á honum á næsta þriðjudag aftur og það þýðir víst svæfing aftur að ég held.

Björgvin er svo duglegur, hann er búinn að drekka fullt af orkumjólk og vatni, tala mikið og hlægja og virðist ekki vera með neinn verk að ráði. Algjört dugnaðarkríli þessi drengur :)

Hann sefur núna með litla me me og súrefnisgrímu.

Kram
Ásdís og Björgvin

Wednesday, October 7, 2009

Læknapot

Þá fer litli snúðurinn minn í fyrstu aðgerðina á morgun til að víkka öndunarveginn. Aðgerðin mun taka klukkutíma og svo verður hann á gjörgæslu í sólarhring þar sem hann gæti þurft öndunarvél ef mikil bólga myndast í hálsinum eftir aðgerðina. En ef allt gengur vel þá ættum við að geta farið heim á laugardaginn.

Björgvini finnst læknapot ekki skemmtilegt, alveg hundfúll á þessu öllu saman en leyfir þeim að hlusta sig og finnst ekkert mál að fara í blóðprufu, kveinkar sér ekki einu sinni þegar hann er stunginn í fingurinn. Hann er svo mikill harðjaxl þessi dúllurass sem ég á.

Hér er hann á ferðinni með klósettsetuna sem hann á að sita á en ekki dröslast með út um alla íbúð :)



Bless í bili
Ásdís og Björgvin

September


September hófst á að Björgvin fór í hjartaþræðingu og CT myndatöku. Allt gekk vel og kom merkileg uppgötvun í ljós að það er mikil þrenging í öndunarvegi hans. Mun það verða lagað í oktober.




Amma og afi komu til okkar til að vera okkur til halds og traust, amma var svo viku lengur hjá okkur og var það mikil hjálp og mikið gaman. Þegar við komum heim af spítalanum þá tóku amma og afi á móti okkur með dýrindis máltíð, hryggur og með því, mmmm :)

Það gerðust undur og stórmerki í þessum mánuði þegar Björgvin náði 10 kg! Það var svo mikil hátíð í bæ þegar vigtin sýndi 10.0 og svo eftir nokkra daga þá var hún orðin 10.1, þvílík gleði :)

Kram
Ásdís og Björgvin

Nýtt blogg

Þetta mun vera bloggið okkar Björgvins, hér mun koma fram hvað er að gerast í lífi okkra, þá mest um Björgvin en auðvitað fylgir mamman með og einnig myndir til að lífga upp á blaðsíðulanga texta hehe.

Fyrsta bloggið mun koma inn í kvöld.

Bless í bili.