Thursday, December 4, 2014

Guð geymi þig barnið mitt

Í dag kveiktum við á ljósakrossinum á leiðinu hans Björgvins Arnars. Það var við hæfi að gera það í dag þar sem afi og hans besti vinur á afmæli í dag.

Búið er að setja niður stein á leiðið og má segja að við séum búin að búa um hann fyrir svefninn eilífða. Það var erfitt að velja steininn, textann, myndina, það er ekkert nógu gott fyrir þennan fallega og yndislega engil. En ég er ánægð með árangurinn, myndin af honum og svo mynd eftir hann sjálfan. Mynd sem hann teiknaði af íþróttaálfinum. Hann var svo mikill snillingur í sér, listamaður og hugsuður.



























Staðurinn sem hann hvílir á er svo fallegur og friðsamur. Jólaljósin loga og snjórinn nýfallinn. Þetta er samt alltaf erfiður tími, þegar jólaundibúningurinn hefst þá þyrlast upp minningar og þó svo að þær séu góðar þá eru þær ljúfsárar. Nú fara önnur jólin að ganga í garð sem Björgvin er ekki hjá mér og það er ennþá óbærileg tilfinning að þau verði bara fleiri og tíminn frá því ég sá hann síðast og fékk að faðma hann og kyssa lengist og lengist. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og það kennir manni margt.

Elsku Björgvin, ég sakna þín svo mikið. Alltaf þegar systir þín fer að sofa þá fer ég með Faðir vorið, syng Leiddu mína litlu hendi, Dvel ég í draumahöll og svo Ó Jesú bróðir besti. Alveg eins og ég gerði fyrir þig á hverju kvöldi og segi svo góða nótt og guð geymi þig. Við áttum svo góðar stundir áður en þú fórst að sofa, lásum saman, töluðum saman og hlóum og hlóum. Þú varst  svo innilegur, skemmtilegur og ótrúlega klár. Ómetanlegar minningar.

Ég elska þig út í geym og til baka og aldrei stoppa.
Guð geymi þig yndislegi drengurinn minn.

Þín mamma.

Tuesday, August 26, 2014

Nú er liðið ár ...

Það er ýmsilegt sem manni grunar ekki að maður eigi eftir að ganga í gegnum á sinni lífsleið. Hver hefur ekki hugsað að allt það erfiða sem kemur fyrir aðra komi ekki fyrir mann sjálfan? Áhyggjulaus og óhagganlegur svífur í gegnum lífið. Sem er raunin hjá sumum. Oft er sagt að ekki sé lagt á mann raunir sem maður komist ekki í gegnum.

Að missa barnið sitt og syrgja barnið sitt er eitthvað sem foreldrar eiga ekki að ganga í gegnum. Að vera í því ferli að ákveða útlit og kaupa legstein fyrir gröf barnsins síns er eitthvað sem ætti ekki að vera hluti af lífsleiðinni.

En þetta er staðan hjá mér. Nú er ár liðið síðan Björgvin Arnar tók seinasta andadráttinn í örmum mínum. Þessi tímamót hafa reynst mér erfiðust en önnur undanfarið ár. Erfiðari en jólin og afmælið hans. Það er erfitt að lýsa tilfinningunni og koma henni í skiljanleg orð.

Það er víst engin rétt leið að syrgja en flestir syrgjendur fara samt í gegnum sömu stigin þó svo að þeir fari ekki í gegnum þau í sömu röð. Það er list að stjórna hugsunum sínum en ekki að láta hugsanir og tilfinningar stjórna sér. Hver dagur ber með sér óteljandi hugsanir og tilfinningar sem þeim fylgja. Og hvernig er þá rétt að lifa lífinu?

Í gegnum þessi ár sem ég fékk að eiga með Björgvini og allt sem hann þurfti að ganga í gegnum þurfti ég að læra þessa list að stjórna mér. Í svona erfliðleikum þá er ekki hægt að hleypa sér í sorg á hverjum degi. Til að getað tekið þátt í lífinu og látið allt ganga upp sem gera þurfti þá var nauðsynlegt að hugsa vel um sig. Hugsa vel um að vera ekki of þreytt og að láta ekki hugsanir draga sig niður. Það vita allir að lífið gengur miklu betur með bjartsýni og jákvæðni. Þó svo að skrítið sé að tala um bjartsýni og jákvæðni í þessum samhengi þá er það staðreynd að það tvennt og að geta haldið í einhverja von getur haldið manni gangandi.

Í dag er þetta orðið lífsstíll hjá mér og þarf ég nú að passa mig að taka mér stundir þar sem ég leyfi mér að falla í sorg og hleypa því út, ekki alltaf að ýta þessum hugsunum og tilfinningum frá mér. Ég er búin að kvíða þessum degi í nokkra daga. Finnst svo ótrúlegt að það sé ár liðið síðan Vinir Björgvins hlupu fyrir hann í Reykjavíkurmaraþoninu og ár síðan ég var með hann heima seinustu dagana og ár síðan minningarathöfnin var haldin.















Mér finnst erfitt að hugsa til þess að tíminn líði svona og það verður alltaf lengra og lengra síðan að ég faðmaði hann og knúsaði og hann talaði við mig og sagði mér hve hann elskaði mig mikið. Ef aðeins ég ætti eina ósk að upplifa það allt aftur.

Samband okkar var svo sérstakt. Hann treysti á mig í einu og öllu. Húmorinn og hláturinn var ríkjandi í okkar sambandi og kærleikurinn á sterum. Björgvin Arnar var svo kærleiksríkur, hlýr, fyndinn, klár og yndislegasta barn sem hægt er að hugsa sér.

Ég sakna hans svo mikið að mig verkjar.














Þú átt alltaf þinn stað í mínu hjarta elsku Björgvin Arnar.

Þín mamma.

Monday, July 28, 2014

Stundum þarf lítið til ...

Þegar ég lít til baka til tímans þegar við vorum með Björgvin Arnar í Boston þegar hann var 7 mánaða þá skil ég ekki hvernig ég komst í gegnum þann tíma. Þetta var fyrsta ferðin okkar til Boston og vorum við þar í tvo mánuði og háði Björgvin Arnar mikla baráttu við hjartagalla. Að standa frammi fyrir hræðslu við það óþekkta, hræðslu við að missa barnið sitt og allt sem þurfti að gera við þennan fullkomna litla kropp sem myndi aldrei verða samur var óskiljanlegt.

Tíminn líður og gerir manni kleift að hugsa til baka og ramma inn upplifun og tilfinningar sem voru sem ólgu sjór á þessum átta vikum.

Lítið bros læddist að mér í vikunni þegar ég var að skipta um bleiu á dóttur minni og notaði blautþurrkur til að þurrka bossann. Það var ekki létt að nálgast blautþurrkur í USA, voru bara hvergi til í nágrenni spítalans í Boston. Þannig að ég bað mömmu um að kaupa blautþurrkur heima og senda Gylfa lækni með þær til Boston ásamt öðru sem við þurftum að fá.















Einn daginn kom ég til Björgvins eftir aðgerð og þá hafði hjúkkan á ICU opnað svona blautþurrkupakka með því að rífa hann í tvennt en ekki opna hann með plastinu ofan á pakkanum til að geta lokað honum aftur. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði, ég varð svo reið og skyldi ekki hvað hún var eiginlega að spá. Greyið konan hefur örugglega lent í ýmsu þegar foreldrar eru undir miklu álagi.

Það er ótrúlegt hvernig svona frekar saklaus hlutur miðað við allt sem gengið hefur á og engan veginn í samhengi við alvarleikann sem í gangi er getur verið það sem fyllir mælirinn. Ég fann til svo mikillar reiði, vonbrigði með þennan annars hæfa starfsmann.

Við svona aðstæður þá er mikilvægt að vera með fært starfsfólk á spítölum og er þá mannlegi þátturinn mjög mikilvægur sérstaklega þegar börn eiga í hlut. Í gegnum þessi 6 ár með Björgvini mínum þá öðlaðist ég mikla reynslu og það fyrsta sem ég áttaði mig á var að ég var ábyrgi aðilinn sem hugsaði um velferð hans. Ekki var hægt að stóla á sérfræðinga þar sem ég þekkti barnið mitt best. Einnig þegar margir sérfræðingar á sínu sviði koma við sögu þá er erfitt fyrir einn sérfræðing að þekkja heildarmyndina og safna öllum upplýsingum saman á einn stað.

Niðurstaðan eftir marga mánuði á spítala hér heima og erlendis er að við eigum ótrúlega hæfileikaríkt og hæft fólk. Aðgengi okkar að því er mjög gott og persónuleg þjónusta hér er mjög dýrmæt. Gylfi Óskarsson barnahjartalæknir var yndislegur, hann er fær læknir og algjör meistari í mannlegum samskiptum. Hann var mér ómældur stuðningur í gegnum árin og hvernig hann náði að sinna okkur ásamt öllum þeim verkefnum sem hann var í og undir svakalegu álagi alltaf hreint, einstaklega vandaður maður. Hann var stundum með Björgvin Arnar á heilanum, gat ekki sofið þar sem ekki fannst hvað var að og sagði Gylfi oft að Björgvin héldi honum svo sannarlega við efnið.

Með þakkir í huga til Gylfa og allra sem komu að okkar veikindaferli í gegnum árin <3 p="">
Þúsund þakkir allir!

Ásdís




Thursday, June 12, 2014

Að pakka saman lífinu

Það er stundum eitthvað í lífinu sem maður er að fresta og kemur því ekki í verk. Eitt af því var að fara í gegnum herbergið hans Björgvins Arnars. Hann átti fallegt herbergi með fullt af dóti og öllu því sem honum þótti vænt um. Hann átti margar góðar stundir þar og þá einna helst að hlusta á tónlist, dansa, leika við ömmu og afa við krakkana ,sem voru litlar fígúrúr eins og Dóra, Klossi, Lási lögga og fleira. Amma og afi bjuggu til heilu sögurnar fyrir hann og styttu honum stundirnar þá daga sem hann varð að vera heima, komst ekki í leikskólann. Hann var svo glaður og ánægður og um leið og amma og afi komu inn um útidyrnar þá bað hann þau um að koma að leika inni í herbergi.

Já það er margar minningarnar sem sitja eftir í hjarta mínu og þær ylja mér þegar sorgin hellist yfir. Veit ekki hve oft ég hef hugsað hve mikið ég vildi bara fá eitt knús og eitt faðm, heyra röddina hans kalla mamma, einu sinni en.















Nú vorum við Eyrún Arna að flytja úr húsinu okkar. Ég þurfti að taka á honum stóra mínum og ganga frá herberginu fallega hans Björgvins Arnars Ég tók þau leikföng sem honum þótti vænst um og geymi þau í sérstökum kassa sem ég geymi það sem mér þykir vænst um og vill halda til haga. Þeir kassar eru reyndar nokkrir. Það er mikið átak að ganga frá öllu sem hann átti. Ég var búin að gefa fötin hans, þau föt sem hann komst aldrei í vegna þess að hann náði ekki að stækka í þau. Nú gaf ég fötin sem hann hafði getað notað. Önnur leikföng vil ég geyma fyrir Eyrúnu og svo önnur gaf ég þeim sem þau gátu glatt. Hér fyrir ofan eru listaverkin sem hann gerðí á leikskólanum.

Mikið ósköp átti hann mikið af leikföngum. Hann var mikið heima og gat ekki verið úti að leika sér né verið mikið á leikskólanum. Honum leiddist ekki, hann var svo mikill hugsuður og dundari. Hann elskaði að horfa á kennsluforrit í tölvunni um hvernig átti að teikna hitt og þetta og fara svo og teikna það sjálfur á töfluna sína. Hana geymi ég með seinustu myndinni sem hann teiknaði.
















Tveimur dögum áður hann kvaddi okkur gaf ég honum nýja lest. Það sem hann var ánægður, hann var í skýjunum og beið eftir að afi hans kom að leika sér með honum og setja hana saman. Ég man það eins og það hafi gerst í gær. Hann stundi svo mikið og var svo slappur, ég gat ekki skilið hvernig hann hékk uppi til að leika sér, syngja, horfa á Latabæ. Hann var svo mikið hörkutól. Það gætu margir tekið hann sér til fyrirmyndar. Hvað sem andlega hliðin getur gert mikið, hann var alltaf ánægður, glaður. Okkar húmor var alveg sértakur. Við vorum að grínast alla daga og hlógum svo mikið saman. Það eru stundirnar sem ég man og varðveiti. 






































Nú á drengurinn minn ekkert herbergi, engin leikföng, engar rólur, ekkert trampólín. Bara nokkrar minningar í kassa en mestu skiptir eru fallegu minningar sem ég á sem munu vera til um aldur og ævi. Hann var alveg einstakur. Stundum þegar ég hugsa um hann þá er ég svo hissa á því hve hann var vel hugsandi og klár og ótrúlega fyndinn. Það var stórkostlegt að fá að hafa hann hjá mér í þennan tíma. Þrátt fyrir alla erfiðleikana þá var það þess virði. Erfliðleikarnir og sorgin sem ég gekk í gegnum átti sér stað einungis vegna þeirra ástar sem ég bar til hans. Það er ólýsanlegt hve ástin var og er sterk. Ástin er sterkasta tilfinning sem er til og við skulum njóta hvers dags með þeim sem við elskum.

Ég elska þig Björgvin minn, út í geim og til baka og aldrei stoppa.

Elsku yndislegi drengurinn minn,
þín mamma.

Wednesday, April 16, 2014

Páskarnir

Nú eru fyrstu páskarnir að ganga í garð án Björgvins. Það er skrítið að upplifa lífið og hann vantar, það er mikið skarð sem ekkert fyllir. Nú væri hann að spyrja mig af hverju páskarnir væru og biðja um að fá páskaegg og að búa til páskaskraut til að gefa ömmu og afa.

Hann var svo duglegur að föndra, skrifa, teikna og leira. Algjör snillingur í sér. Hann hafði svo mikla unun að því að skoða og stúdera teikniforrit og svo fór hann á töfluna sína og notaði það sem hann lærði. Ekki var hann í vandræðum með að hugsa upp eitthvað nýtt til að skrifa eða teikna og gerði það svo listavel. Hann vandaði sig svo mikið og sagði mér svo frá hvernig hann fór að þessu og hvað hann var að hugsa á meðan hann var að horfa á fræðsluna og svo þegar hann var að búa til listaverkið sjálft.

























Hann föndraði mikið með Allý, gerði svo fallegt og vildi alltaf gera eitthvað til að gefa mér og Eyrúnu. Hann var svo gjafmildur og vildi gera eitthvað gott fyrir okkur.

























Samband okkar var alveg sérstakt. Ég var honum allt og hann mér. Ég lifði fyrir hann og reyndi að gera honum lífið sem best. Passaði vel upp á að honum liði alltaf vel andlega. Aðstæður voru stundum þannig að það var mikið verk. Hann náði að vera alltaf í góðu umhverfi með mikilli ást og umhyggju. Núna þegar ég hugsa til baka þá finn ég í hjarta mínu að ég hefði ekki getað gert betur og það er góð tilfinning. Ég lagði allt mitt í að umvefja hann því sem hann þurfti á að halda með aðstoð mömmu, pabba og Allýjar.

Sakna þín óendanlega mikið elsku hjartans Björgvin minn  <3 p="">


Monday, March 17, 2014

Söknuður

Það er sagt að tíminn lækni öll sár...en það gerist ekki af sjálfu sér. Sorgarferlið er vinna og þegar sorgin verður erfið þá er vinna að einbeita sér að góðu og fallegu minningunum sem maður á.

Hér er mynd af fallega drengnum mínum þegar hann var ekki með súrefnisslönguna. Þvílíkt krútt.

























Björgvin var 5 ára þegar hann sagði þetta við mig:
  - Mamma, þegar þú ert dáin, þá getur þú ekki staðið, labbað, setið, hlegið og tiplað á tám upp fjall.
  - Ég verð rosalega gamall maður.
  - Áður en hann var að fara að sofa: Mamma, eru nokkuð risaeðlur úti?

























Hér var hann að leira með Allý sinni. Mikið sem hún var dugleg að gera allt mögulegt með honum. Föndra, leira, kubba, púsla. Hann var svo mikið fyrir að dunda sér og gera eitthvað með þeim sem var hjá honum.

Síðasta mánuðinn okkar saman þá teiknaði hann á töfluna, hlustaði á tónlist og söng með. Teiknaði á blöð og ég klippti út og svo límdi hann það sem klippt var út á örk. Útkoman voru mikil listaverk sem ég mun geyma alla tíð.

Ég vildi geta verið hjá þér
veslings barnið mitt.
Umlukt þig með örmum mínum.
Unir hver með sitt.
Oft ég hugsa auðmjúkt til þín
einkum, þegar húmar að.
Eins þótt fari óravegu
átt þú mér í hjarta stað.


Ég mun alltaf elska þig,
þín mamma.

Wednesday, February 26, 2014

Sex mánuðir án þín

Nú eru liðnir sex mánuðir síðan yndislegi drengurinn minn kvaddi þennan heim. Ég man það eins og það hafi gerst í gær. 

Mér finnst það ekkert minna ósanngjarnt núna og þá að horfa upp á það að lífið haldi áfram sinn vanagang. Að sleppa af honum hendinni var ekki léttvægt og ég geri mér ekki fulla grein fyrir því hvort ég sé alveg búin að því ennþá. Að lifa lífinu án hans er óumflýjanlegt og hjálpar að minnast góðu stundanna, hugsa til þess að hann hefði viljað að mamma sín væri hamingjusöm. Hann bar mig mikið fyrir brjósti sér. Hann var alltaf að kúra hjá mér og knúsa mig og segja mér hve mikið hann elskaði mig. Ég sakna þess að heyra ekki þau orð og kall hans á mömmu sína. 















Nú er ég búin að upplifa jólin, áramótin og fyrsta afmælisdaginn frá andláti hans. Afmælisdagurinn var erfiðastur. Björgvin var svo spenntur að eiga afmæli og hlakkaði svo til að verða 7 ára. Einnig hlakkaði hann til að byrja í skóla og verða stór, sem ekki varð úr. 

Við fjölskyldan komum saman á afmælisdaginn og höfðum notalega samverustund. Það var gott að koma saman og minnast snillingsins okkar. Við horfðum á myndbönd og hjá sumum láku tárin. Það var bara eins og hann væri kominn aftur til okkar, ljóslifandi. Þessi myndbönd eru ómetanleg.

Elsku drengurinn minn, minning þín lifir og ég hugsa til þín endalaust oft.

Knús
Ásdís og Eyrún Arna

Monday, February 3, 2014

7 ára afmælisengill

Í dag hefði Björgvin Arnar orðið 7 ára gamall. Það er erfitt að hugsa til þess að hann sé ekki hér hjá okkur, litli yndislegi drengurinn minn.

Þessi dagur var sérstakur þegar hann kom í heiminn fyrir 7 árum síðan kl 2:33. Ótrúleg stund að fá hann í fangið, þetta fullkomna eintak og vera orðin móðir. Sérstök tilfinning.



















Sorgin er mikil og þá sérstaklega þegar ég hugsa til þess þegar hann sagði "Mamma, þegar ég er búinn að verða 7 ára þá verður Eyrún Arna 1 árs."

Elsku Björgvin minn, ég sakna þín svo mikið, meira en orð fá lýst.

Elska þig svo mikið, alla leið út í geim og til baka og aldrei stoppa.

Þín mamma.

Friday, January 24, 2014

Fallegt ljóð

Með fallegri ljóðum ...

Að lifa er að gefa hér bæði margt og mikið,
að magna hverja hugsun sem fegurð lífsins á,
að geta náð að skynja af alúð augnablikið;
þá ást sem býr í brjósti er stundir líða hjá.

Ef hugsunin er fögur og fær mig til að tárast
þá titra í mér hjartað og sálin flýgur sátt,
því lífið hefur tilgang í ást sem aldrei klárast
en ævinlega blómstra á lífsins besta hátt.

Ég mína trú á tilgang og fegurð fæ að játa
svo fagna ég því öllu sem lífið veitir mér.
Ef hjartað þiggur hlýju af gleði má ég gráta
og gjöfum lífsins deili ég auðvitað með þér.
~ Kristján Hreinsson

Monday, January 20, 2014

Vonin

Á þessum tíma fyrir um ári síðan þá var ég við það að missa vonina á að Björgvin myndi öðlast betri heilsu. Þá beið ég eftir niðurstöðu blóðrannsóknar sem var send til Bandaríkjanna hvort hann væri með tiltekinn sjúkdóm sem læknarnir töldu 99% líkur á.

Ég vissi að ef staðfesting kæmi þá væri engin von.

Árin á undan voru ólýsanlega erfið en alltaf hélt ég áfram baráttunni þar sem ég átti von sem var minn kraftur í að hlúa að Björgvini í einu og öllu. Ég hélt svo fast í hana. En svo fékk ég að lifa lífinu án vonar. Að finna vonleysið og berjast við hugann sem leitaði í neikvæðar hugsanir um hvað framundan væri. Mikilvægt var að gera sér grein fyrir því að allar hugsanirnar áttu rétt á sér þó svo að best væri að reyna að hafa hemil á þeim og lifa fyrir hvern dag. Mikilvægt var að láta sorgina ekki ná tökum á sér og ekki sökkva sér djúpt í hana á hverjum degi.

Þessir smáu hlutir, brosin og fallegu orðin voru þá dýrmæt.

Frasar frá Björgvini:

Björgvin: Afi, átt þú náttföt?
Afi: Já já
Björgvin: en a amma náttföt?
Afi: Já já.
Björgvin: Já svona alveg eins og ég? með beinagrind á?

Allý: hver krotaði á vegginn?
Björgvin: það var einhver krakki sem gerði það.

Mamma: Þú ert strákurinn minn.
Björgvin: Já en Magga á mig líka.

Björgvin: Mamma, þegar þú ert dáin þá getur þú ekki staðið, labbað, sitjið, hlægjið og tiplað á tám upp fjall.

Mamma: Hvað viltu læra þegar þú ferð í tónlistarskóla?
Björgvin: Harmonikku eða horn.

Björgvin: Mamma, erum við lengi í helgarfríi?
Mamma: Já í tvo daga.
Björgvin: Nei, mig langar að vera lengi lengi lengi í helgarfríi, alveg í hálftíma! :)



















Ást
Ásdís og Eyrún Arna

Wednesday, January 1, 2014

Árið er liðið ...

Nú er árið 2013 liðið. Þegar ég lít til baka þá veit ég hreinlega ekki hvað ég á að segja um þetta ár. Ef hægt er að tala um að eitthvað sé ljúfsárt þá var þetta ár þannig. Árið sem hamingja og sorg mættust.

Í febrúar þá fékk ég staðfest að Björgvin væri með þann sjúkdóm sem læknarnir héldu eftir mikla yfirlegu. Að fá þessa staðfestingu var mikið sjokk, ekki þessi léttir að vita loksins hvað væri að eins og fólk sagði oft að væri. Líklegast var það vegna þess að útlitið var ekki gott og þessi vitneskja staðfesti að ekkert væri í raun framundan hjá Björgvini mínum. Í öll þessi ár var ég alltaf að bíða eftir að ástandið myndi batna, annað hvort hann myndi fá betri heilsu eða niðurstaða sjúkdómsgreiningar væri þannig að eitthvað væri hægt að gera fyrir hann. Annað var óhugsandi og ósanngjarnt.

Á sama tíma og ég fékk þessar hræðilegu fréttir að Björgvin minn væri með skertar lífslíkur, þar sem 50% barna með þennan sjúkdóm lifa ekki lengur en 5 ár, þá kom Eyrún Arna í heiminn. Það er eiginlega ólýsanlegt að upplifa svona hamingju að fá barn í fangið á meðan hinu barninu er ekki hugað líf.

Næstu mánuðir voru erfiðir. Heilsa Björgvins fór versnandi og var sumarið þannig að ég hugsaði stundum með mér að þetta gæti ekki gengið lengur. Þá er nú mikið sagt. Þrátt fyrir sjúkdómsgreininguna þá bjóst ég aldrei við að endalokin myndu koma svona fljótt. Ég bjóst samt ekki við að hann myndi vera hjá mér allan veturinn en þegar það fór virkilega að halla undan fæti þá gerðist það hratt.

Seinustu dagarnir voru þannig að honum var farið að líða mjög illa og átti mjög erfitt með að draga andann. Þetta á ekkert foreldri að þurfa að ganga í gegnum eða horfa upp á. Þegar ástandið er orðið það slæmt að maður hugsar sér að dauðinn sé ekki alltaf verstur þá er það slæmt.

Tíminn frá andláti Björgvins hefur verið skrítinn. Ég hef þurft að læra að lifa lífinu í allt öðru mynstri en ég er vön seinustu ár. Söknuðurinn er mikill. Stundum á ég erfitt með að átta mig á því að ég eigi aldrei eftir að halda honum í fangi mínu og segja honum hve heitt ég elska hann. Óraunverulegt. Minningarnar lifa og þær eru margar dásamlegar og ómetanlegar.

Í gær þá kvaddi ég þetta ár. Þetta ár sem ég eignaðist barn og missti barn. Einu tímabili í mínu lífi er lokið og annað er hafið. Ég kvaddi þetta ár með blendnum tilfinningum með mínum bestu og dýrmætustu.


























En tek jafnframt á móti nýja árinu með hlýju og ást í hjarta. Björgvin hefði viljað að mömmu sinni og systur liði vel og hjá okkur væri mikið um gleði og hlátur eins og einkenndi okkar samskipti og líf.

Ást til ykkar allra og munið að njóta hvers dags með þeim sem ykkur þykir vænt um.

Ásdís og Eyrún Arna