Í dag kveiktum við á ljósakrossinum á leiðinu hans Björgvins Arnars. Það var við hæfi að gera það í dag þar sem afi og hans besti vinur á afmæli í dag.
Búið er að setja niður stein á leiðið og má segja að við séum búin að búa um hann fyrir svefninn eilífða. Það var erfitt að velja steininn, textann, myndina, það er ekkert nógu gott fyrir þennan fallega og yndislega engil. En ég er ánægð með árangurinn, myndin af honum og svo mynd eftir hann sjálfan. Mynd sem hann teiknaði af íþróttaálfinum. Hann var svo mikill snillingur í sér, listamaður og hugsuður.
Staðurinn sem hann hvílir á er svo fallegur og friðsamur. Jólaljósin loga og snjórinn nýfallinn. Þetta er samt alltaf erfiður tími, þegar jólaundibúningurinn hefst þá þyrlast upp minningar og þó svo að þær séu góðar þá eru þær ljúfsárar. Nú fara önnur jólin að ganga í garð sem Björgvin er ekki hjá mér og það er ennþá óbærileg tilfinning að þau verði bara fleiri og tíminn frá því ég sá hann síðast og fékk að faðma hann og kyssa lengist og lengist. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og það kennir manni margt.
Elsku Björgvin, ég sakna þín svo mikið. Alltaf þegar systir þín fer að sofa þá fer ég með Faðir vorið, syng Leiddu mína litlu hendi, Dvel ég í draumahöll og svo Ó Jesú bróðir besti. Alveg eins og ég gerði fyrir þig á hverju kvöldi og segi svo góða nótt og guð geymi þig. Við áttum svo góðar stundir áður en þú fórst að sofa, lásum saman, töluðum saman og hlóum og hlóum. Þú varst svo innilegur, skemmtilegur og ótrúlega klár. Ómetanlegar minningar.
Ég elska þig út í geym og til baka og aldrei stoppa.
Guð geymi þig yndislegi drengurinn minn.
Þín mamma.
Thursday, December 4, 2014
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
4 comments:
Þetta er mjög fallegur steinn sem þið hafið valið fyrir þennan yndislega engil.
Ótrúlega flott myndin af íþróttaálfinum hjá honum.
Knús til þín og þinna elsku Ásdís
P.S. Ella María
Fallegur hvíldarstaður fyrir yndislega drenginn þinn. Falleg orð eins og alltaf. Knús elsku vinkona mín.
Bjarki
Mér finnst ykkur hafa tekist vel til að velja fyrir drenginn ykkar.
Hjartanskveðjur elsku Ásdís,
Þórey Arna
Post a Comment