Wednesday, February 26, 2014

Sex mánuðir án þín

Nú eru liðnir sex mánuðir síðan yndislegi drengurinn minn kvaddi þennan heim. Ég man það eins og það hafi gerst í gær. 

Mér finnst það ekkert minna ósanngjarnt núna og þá að horfa upp á það að lífið haldi áfram sinn vanagang. Að sleppa af honum hendinni var ekki léttvægt og ég geri mér ekki fulla grein fyrir því hvort ég sé alveg búin að því ennþá. Að lifa lífinu án hans er óumflýjanlegt og hjálpar að minnast góðu stundanna, hugsa til þess að hann hefði viljað að mamma sín væri hamingjusöm. Hann bar mig mikið fyrir brjósti sér. Hann var alltaf að kúra hjá mér og knúsa mig og segja mér hve mikið hann elskaði mig. Ég sakna þess að heyra ekki þau orð og kall hans á mömmu sína. 















Nú er ég búin að upplifa jólin, áramótin og fyrsta afmælisdaginn frá andláti hans. Afmælisdagurinn var erfiðastur. Björgvin var svo spenntur að eiga afmæli og hlakkaði svo til að verða 7 ára. Einnig hlakkaði hann til að byrja í skóla og verða stór, sem ekki varð úr. 

Við fjölskyldan komum saman á afmælisdaginn og höfðum notalega samverustund. Það var gott að koma saman og minnast snillingsins okkar. Við horfðum á myndbönd og hjá sumum láku tárin. Það var bara eins og hann væri kominn aftur til okkar, ljóslifandi. Þessi myndbönd eru ómetanleg.

Elsku drengurinn minn, minning þín lifir og ég hugsa til þín endalaust oft.

Knús
Ásdís og Eyrún Arna

2 comments:

Anonymous said...



Bjarki

Linda said...

Knús!