Friday, August 30, 2013

Lítill engill í fegurð himinsins

Eftir sit ég og hugsa hve lífið getur verið ósanngjarnt og hverfult. Velti fyrir mér af hverju mér var ætlað þetta hlutverk í lífinu. Hver er tilgangurinn? Sanngirni?

Ég finn fyrir þakklæti. Ég fékk að hafa hann hjá mér í rúm sex ár. Fékk að upplifa bestu stundir í mínu lífi sem voru oftast þær þegar við hlógum saman og það var ekki sjaldan. Við hlógum saman á hverjum degi og oft svo innilega að við fengum hláturskast, erfitt var að hætta.

Seinustu mánuðina lifði ég fyrir og fékk meiri kraft til að halda áfram baráttunni með hverju brosi sem kom fram á varir hans. Að dagarnir væru eins góðir fyrir hann og hægt væri var markmið hvers dags.

Drengurinn minn var einstakur. Hann var vel hugsandi, tilfinningaríkur, ljúfur, hlýr, skemmtilegur, fyndinn, klár, raunsær, ákveðinn, tónelskur, listamaður. Ég get lengið talið áfram alla hans kosti. Hann hreyfði við hjörtum fólks með einlægni sinni og blíðu.


















Kæri vinur, ég sakna þín,
vildi að þú kæmist aftur til mín.
En þú ert umvafinn ljósi þar,
eins og þú varst reyndar allstaðar.
Sárt er að horfa á eftir þér,
en ég veit að þú munt muna eftir mér.
Því þitt hreina hjarta og bjarta sál,
munu þerra okkar trega tár.

Nú þarf ég að læra að lifa lífinu án þín. Það er meira en að segja það. En ég mun geta það og þú munt lifa í mínu hjarta og það er mitt að koma minningunni um þig til systur þinnar.

Elsku fallegi og yndislegi drengurinn minn.

Ég elska þig endalaust, út í geim og til baka og aldrei stoppa.

Þín mamma.


6 comments:

Anonymous said...

knús elsku vinkona <3 yndisleg orð um yndislegan dreng XO

Kveðja Ester

Anonymous said...

Ó elsku hjartans vinkona þetta er svo fallega skrifað og þungbærara en orð fá lýst.

En hversu heppinn hann var að eiga móðir eins og þig í gegnum þetta allt. Mömmu sem var allt. Svo hörð af sér og klár og dugleg en líka svo ástkær og blíð og síðast en ekki síst svo skemmtileg! Þú vannst ekkert annað en kraftaverk að hafa náð að skapa svona margar fallegar minningar og gott líf fyrir þennan yndislega dreng þrátt fyrir alla erfiðleikana.

Við munum öll halda minningu hans hátt á lofti það sem eftir er.



Knús Bjarki

Anonymous said...

Innilegar samúðarkveðjur frá einni sem er búin að fylgjast með af og til í einhver ár. Sendi styrk til ykkar mæðgna og fjölskyldu.

Kolbrún Helga Pálsdóttir.

Anonymous said...

Elsku Ásdís,
Það er eins og Bjarki segir hér að ofan að þetta er þungbærara en orð fá lýst. Og þið hafið verið svo miklar hetjur í gegnum alla erfiðleikana.

Við fjölskyldan minnumst Björgvins Arnars sem yndislegs íþróttaálfs sem sýndi okkur meðal annars stundum íþróttaálfsatriði 😊 Börnunum er minnistætt þegar hann fór í spígat fyrir þau í Kringlunni fyrir tveimur árum. Svo mikið krútt!

Þúsund knús!
Linda, Sindri, Sindri Dagur, Elín Lilja & Sveinn Emil

Anonymous said...

Elsku Ásdís, þetta er svo erfið lesning en í senn svo hjartnæm og kærleiksrík.

Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast hetjunni þinni, þessum ljósgeisla og eðaldreng, sem ásamt ofurmömmu sinni, yfirsteig hetjulegar raunir hvað eftir annað án þess að kveinka sér.

Takk fyrir að hafa leyft okkur að fylgjast með ykkar vegferð saman gegnum bloggið ykkar.
Hans för heldur nú áfram á fallegum og góðum stað, á meðan mun minning hans lifa hátt á lofti.

Hugur minn er hjá ykkur og vona að þú finnir styrk til að hjálpa þér gegnum þessa erfiðu tíma.

Knús,
Hrannar

Anonymous said...

Elsku besta Ásdís.
Mikið voru þetta yndisleg orð um yndislega drenginn þinn.
Hann fékk alla vega réttu mömmuna í lífinu sínu stutta.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur, þið eruð í hugsunum okkar og bænum.

knús og kram <3
Sunna, Magnús og dætur