Saturday, August 24, 2013

Heilsunni hrakar.

Vikan er búin að vera erfið og eiginlega hægt að lýsa henni sem rússibanaferð.

Björgvini er búið að hraka mikið. Hann á mjög erfitt með að anda og gengur hann til við hvern andardrátt. Það eru ekki ófá skipti sem ég hef óskað mér að geta gert þetta allt fyrir hann eða tekið allt sem hann er að ganga í gegnum yfir á mig. Einnig hefur þrekið hans breyst, nú er hann þreklítill sem þýðir að hann leikur sér í smá stund og er svo alveg búinn á því og liggur fyrir og hvílir sig. Þetta ástand er alveg nýtt.

Læknar og annað hjúkrunarfólk er alveg rasandi á hve ótrúleg harka er í honum inn á milli miðað við hve langt hann fer niður þegar hann missir þrekið. Já það er seigla í drengnum mínum, algjör nagli.















Markmið vikunnar var að láta hann nota vél á nóttunni sem hjálpar honum að anda. Það hefur verið þannig að hann er að falla mikið í mettun á nóttunni og er það ekki gott fyrir hann. Bæði hvílist hann verr og þetta er ekki að gera háþrýstingnum í lungunum neinn greiða.

Björgvin hefur ekki verið alltof spenntur að nota þessa vél þar sem hann þarf að vera með grímu yfir nefinu sem er spennt aftur fyrir höfuð svo að hún detti ekki af. Ábyggilega ferlega óþægilegt og ekki batnar það þegar vélin er sett í gang og blásturinn byrjar. Fullorðnu fólki hefur fundist þetta mjög óþægilegt hvað þá litlu barni.















Við komum heim í gær þar sem markmiðið er að vera heima eins og hægt er þar sem Björgvini líður best. Nú tökum við einungis einn dag í einu þar sem við tökum líðan Björgvins inn í myndina og einnig reynum við að nota þessa vél á nóttunni til að hann verði hressari og þrekmeiri á daginn.

Góðir vinir heimsóttu Björgvin á spítalann í vikunni. Eiríkur Fjalar og íþróttaálfurinn komu og vöktu þeir mikla lukku hjá hetjunni minni.

Einnig komu vinkonur og vinir í heimsókn til okkar og alltaf þegar bjátar mikið á þá þakka ég fyrir að eiga svona góða að :-*

Kærleikskveðja
Ásdís og Björgvin Arnar



8 comments:

Anonymous said...

Þið eruð bæði svo ótrúleg. Það þarf ofurmenni til að standast svona álag. Kossar og Knús.

Bjarki

Anonymous said...

Segi það sama og Bjarki, þvílík seigla og harka!
Sendi hlýjar hugsanir og strauma.

Knús,
Hrannar

Anonymous said...

Hetjur bæði tvö! Allar fallegar hugsanir eru hjá ykkur.
kveðja
Lóa

Anonymous said...

Þið standið ykkur ótrúlega vel!

Kærleikskveðjur & knús til ykkar
Fjóla & dætur

Linda said...

Æj elsku Björgvin og Ásdís. Erfiðari tíma er vart hægt að hugsa sér. Þið eruð í bænum mínum. Tek undir það sem aðrir segja - þið eruð ótrúlega dugleg!
Linda

Anonymous said...

hugurinn er hjá ykkur sem fyrr elsku vinkona - knúsaðu litlu hetjuna frá okkur.
Ragga

Anonymous said...

Gangi ykkur vel í baráttunni! Flottur Björgvin með íþróttaálfinum!

Kv,
Hrafn

Anonymous said...

Við hugsum svo mikið til ykkar elsku Ásdís.
Kærleiksknús frá Sverige

Sunna og fjölskylda