Saturday, November 24, 2012

Útskrifuð með súrefni

Jæja þá erum við útskrifuð af spítalanum þrátt fyrir að Björgvin þurfi súrefni allan sólarhringinn. En við komum í reglulega skoðun og eftirlit, næst eftir viku.

Björgvin jafnaði sig fljótt á þessum köstum sem sterarnir framkalla þegar þeirri lyfjagjöf var hætt og er orðinn líkur sjálfum sér. Hann varð aðeins betri í mettuninni en ekki nóg til að losna við súrefnið.

























En það er mikið gott að vera heima þó svo að það séu líka mikið viðbrigði þar sem ekki er eins mikið um að vera hér heima og á spítalanum. En við reynum að fá góða vini í heimsókn og í vikunni kom Magga leikskólakennari með þrjú börn með sér til að heimsækja Björgvin. Einnig fékk Björgvin Magnús vin sinn í heimsókn.


















Það eru líka viðbrigði fyrir mömmuna að vera komin heim, bæði gott og svo dálítið erfiðara. Það er mikið verk að halda heimili og vera í stöðugri umönnun með strákinn sinn. En að vera með hann heima er dásamlegt og ekki annað hægt að sofna þreytt en ánægð á hverju kvöldi :)

Amma að leika við Björgvin Arnar, gott að sjá þau í þessum leik, uppáhaldið hans Björgvin þegar amma kemur og leikur við hann inni í herbergi.


















Nú vilja læknarnir bíða aðeins, þ.e. að láta tímann lækna lungun, ekki beita frekari meðferð af lyfjum. Sjáum til hvernig það mun ganga en markmiðið er að ná honum af súrefninu alla vega að deginum til. Það yrði nú mikið frelsi og nálgast eðlilegt líf. Staðan verður tekin aftur föstudaginn 30. nóv. en á meðan mun ég taka stöðuna á mettuninni á hverjum degi og fylgjast með vigtinni og passa að hann drekki ekki of mikinn vökva.

 Björgvin fékk flensusprautu í gær og er ég ekki frá því að hann sé með smá eftirköst eftir það, nokkrar kommur og vanlíðan. Vonandi líður það fljótt frá.

Kær kveðja úr Svölutjörn
Ásdís

5 comments:

Anonymous said...

Þið takið máltækið þolinmæði þrautir vinnur allar á alveg nýtt stig. Duglegust af öllum!

Bjarki

Anonymous said...

til lukku með útskriftina... þið eruð endalaust dugleg - vonandi hristir hann af sér slenið af flensusprautunni og losnar við súrefnið sem allra fyrst.
Knús á ykkur - Ragga og co.

Anonymous said...

Sammála Bjarka.
Þið eruð alveg algerar ofurhetjur!

En ekki gleyma fara vel með þig elsku Ásdís <3

Knús og kram
Sunna og co

Anonymous said...

Ofurhetjan alveg með þetta :)
Gott að heyra að þið eruð komin heim og vonandi losnar hann við súrefnið sem fyrst.
Farið vel með ykkur og bið að heilsa mömmu þinni
bkv
Heiðrún

Solla said...

góðar fréttir af ykkur