Það er ýmsilegt sem manni grunar ekki að maður eigi eftir að ganga í gegnum á sinni lífsleið. Hver hefur ekki hugsað að allt það erfiða sem kemur fyrir aðra komi ekki fyrir mann sjálfan? Áhyggjulaus og óhagganlegur svífur í gegnum lífið. Sem er raunin hjá sumum. Oft er sagt að ekki sé lagt á mann raunir sem maður komist ekki í gegnum.
Að missa barnið sitt og syrgja barnið sitt er eitthvað sem foreldrar eiga ekki að ganga í gegnum. Að vera í því ferli að ákveða útlit og kaupa legstein fyrir gröf barnsins síns er eitthvað sem ætti ekki að vera hluti af lífsleiðinni.
En þetta er staðan hjá mér. Nú er ár liðið síðan Björgvin Arnar tók seinasta andadráttinn í örmum mínum. Þessi tímamót hafa reynst mér erfiðust en önnur undanfarið ár. Erfiðari en jólin og afmælið hans. Það er erfitt að lýsa tilfinningunni og koma henni í skiljanleg orð.
Það er víst engin rétt leið að syrgja en flestir syrgjendur fara samt í gegnum sömu stigin þó svo að þeir fari ekki í gegnum þau í sömu röð. Það er list að stjórna hugsunum sínum en ekki að láta hugsanir og tilfinningar stjórna sér. Hver dagur ber með sér óteljandi hugsanir og tilfinningar sem þeim fylgja. Og hvernig er þá rétt að lifa lífinu?
Í gegnum þessi ár sem ég fékk að eiga með Björgvini og allt sem hann þurfti að ganga í gegnum þurfti ég að læra þessa list að stjórna mér. Í svona erfliðleikum þá er ekki hægt að hleypa sér í sorg á hverjum degi. Til að getað tekið þátt í lífinu og látið allt ganga upp sem gera þurfti þá var nauðsynlegt að hugsa vel um sig. Hugsa vel um að vera ekki of þreytt og að láta ekki hugsanir draga sig niður. Það vita allir að lífið gengur miklu betur með bjartsýni og jákvæðni. Þó svo að skrítið sé að tala um bjartsýni og jákvæðni í þessum samhengi þá er það staðreynd að það tvennt og að geta haldið í einhverja von getur haldið manni gangandi.
Í dag er þetta orðið lífsstíll hjá mér og þarf ég nú að passa mig að taka mér stundir þar sem ég leyfi mér að falla í sorg og hleypa því út, ekki alltaf að ýta þessum hugsunum og tilfinningum frá mér. Ég er búin að kvíða þessum degi í nokkra daga. Finnst svo ótrúlegt að það sé ár liðið síðan Vinir Björgvins hlupu fyrir hann í Reykjavíkurmaraþoninu og ár síðan ég var með hann heima seinustu dagana og ár síðan minningarathöfnin var haldin.
Mér finnst erfitt að hugsa til þess að tíminn líði svona og það verður alltaf lengra og lengra síðan að ég faðmaði hann og knúsaði og hann talaði við mig og sagði mér hve hann elskaði mig mikið. Ef aðeins ég ætti eina ósk að upplifa það allt aftur.
Samband okkar var svo sérstakt. Hann treysti á mig í einu og öllu. Húmorinn og hláturinn var ríkjandi í okkar sambandi og kærleikurinn á sterum. Björgvin Arnar var svo kærleiksríkur, hlýr, fyndinn, klár og yndislegasta barn sem hægt er að hugsa sér.
Ég sakna hans svo mikið að mig verkjar.
Þú átt alltaf þinn stað í mínu hjarta elsku Björgvin Arnar.
Þín mamma.
Tuesday, August 26, 2014
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
9 comments:
Yndisleg orð <3 og þessi mynd af ykkur er svo hlý og æðisleg. Knús á þig <3
Kveðja
Allý
Elsku Ásdís
það er ekkert hægt að segja, ég sit bara og tárin renna og ég hugsa til þín.
Dáðist að þér í baráttunni og dáist að þér í sorginni elsku vinkona mín.
Knús, Bjarki
Björgvin átti bestu móður sem hugsast gat. Þú ert svo góð fyrirmynd og það var ótrúlegt að fylgjast með þér fara í gegnum þetta erfiða ferli. Megi allar góðar vættir vaka yfir þér og þínum elsku vinkona.
Hrund
Knús elsku yndislega vinkona... hugurinn er hjá þér - erfið spor þetta eru... Guð geymi litla engilinn okkar bjarta... Ragga
Yndislegt en svo erfitt að lesa þetta. Þið voruð og eruð svo sterk saman. Kærleikskveðja mín kæra, Tinna
Kærleiksknús elsku Ásdís mín!
Samband ykkar var svo sannarlega einstaklega fallegt eins og þið tvö að innan sem utan!
/Sunna
Þú ert og verður alltaf ein af hversdagshetjunum mínum! Enn og aftur sit ég hér og les það sem þú skrifar svo fallega, tárin renna niður kinnarnar og ég dáist af þeim styrk og þeim krafti sem þú býrð yfir. Á samma tíma veit ég að þeir sem eru sterkir, þurfa líka að leyfa sér að bugast, gráta, syrgja og sakna, það er eðlilegt, hollt og nauðsynlegt!!
Risa knús elsku Ásdís mín
Elsku Ásdís,
Ótrúlega opin og hlý orð, segja mikið um þig og þinn styrk.Koss og knús frá Síberíu, Maja
Post a Comment