Eftir allar fréttirnar af flensunni miklu og að það sé vart hægt að koma á spítalann vegna smithættu þá var maður alveg skjálfandi á beinunum að fara með Björgvin á spítalann en við urðum að taka áhættuna.
Við fórum að hitta Gylfa lækni og einnig lungnalæknir og hjúkku sem sér um lungnaveik börn. Björgvin var hlustaður og þeim leist ekkert illa á hann. Fannst öndunin frekar góð og áreynslulaus þó svo að mettunin sé alls ekki góð án súrefnis og hefur verið að versna undanfarið, þ.e. að við þurfum að nota meira súrefni til að halda uppi góðri mettun.
Við breyttum aðeins lyfjameðferðinni, aðferðinni við að taka pústið, þ.e. ekki nota maska eins og við erum vön að gera heldur að setja stútinn beint inn í munninn til að fá sem mest af efninu ofan í lungun. Þar sem Björgvin er orðinn það gamall er hægt að útskýra þetta allt fyrir honum og gekk þetta eins og í sögu. Einnig fékk Björgvin nýtt lyf sem á að minnka bólgur í lungum. Við ætlum að prófa þessa meðferð í tvær vikur og athuga hvort súrefnisþörfin hans minnki eitthvað við þetta. Ef ekki þá munum við breyta pústmeðferðinni yfir í fljótandi púst úr vél.
Björgvin Arnar er samt hress og kátur, bólar ekkert á pirring eða fýlu yfir að þurfa að vera alltaf með súrefni eða heima. Hann er einstaklega skapgóður og yndislegur. Við höfum verið að heimsækja leikskólann oft í viku undanfarið og honum hefur fundist það mjög gaman.
Allý hefur verið að passa fyrir hádegi og svo koma amma og afi kl 13 og taka við. Það er góð tilbreyting í því og í gær þá fóru afi og amma með Björgvin í Íslandsbanka til að ná í afmælissett sem beið hans og þar hitti hann góðar konur sem gáfu honum Georg bauk sem honum langaði svo hrikalega mikið í. Já það var mikil gleði þann daginn og þarf ekki mikið til að gleðja lítið hjarta!
Nú liður senn að afmælinu hans á sunnudaginn, þá verður þetta hjartagull 6 ára. Það er mikil tilhlökkun á þessum bæ.
Kveðja frá okkur
Ásdís og Björgvin Arnar
Thursday, January 31, 2013
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Þið eruð svo ótrúlega dugleg eins og alltaf. Vonandi gera þessar breytingar gæfumuninn.
Frábær mynd með Georg :-)
Hlakka til að sjá hann á afmælisdaginn!!
Bjarki
Til hamingju með daginn! Það fer að styttast í fermingu :)
Vonandi mun þessi breyting á lyfjagjöfinni hjálpa svo að hann fari nú að losna við súrefnið!
Risa afmælisknús til ykkar flottu mæðgin! :*
Post a Comment