Thursday, January 8, 2015

Gjöf til Barnaspítalans til minningar um Björgvin Arnar

Í morgun fórum við Vikar, ásamt Eyrúnu Örnu, og afhentum Barnaspítala Hringsins 82.000 kr. sem voru hluti af þátttökugjaldi í Reykjanesmaraþoni sem Lífsstíll Líkamsrækt hélt í haust.  Frábært framtak Vikar og þúsund þakkir til allra sem tóku þátt og áttu því þátt í verki til góðs.




Ákveðið var að setja peninginn í það sem styttir börnum stundirnar á spítalanum og fengu Gróa og Sibba því peninginn til að setja í það sem er brýnast fyrir þau þessa stundina, Þeir sem hafa verið með börnin sín á spítalanum vita hve mikilvæg dægrastytting er fyrir þau. Leikstofan er undraveröld fyrir börnin í erfiðum aðstæðum.



























Eyrún Arna fékk að leika sér á leikstofunni og fór hún beint í babú bílinn eins og Björgvin kallaði hann og var alveg sjúkur í. Alltaf þegar við komum á spítalann og áttum að mæta hjá lækni þá fórum við og náðum í bílinn fyrst.


























Gott að koma á spítalann aftur, ef ætlað að heimsækja alla lengi en hef ekki haft mig í það. Frábært að hitta Gróu, Sibbu og sérstaklega Gylfa lækni.

Mínar bestu kveðjur,
Ásdís og Eyrún Arna

Thursday, January 1, 2015

Gleðilegt ár 2015 elsku engillinn minn

Við fórum að leiðinu hans Björgvins Arnars á Aðfangadag og var yndislegt að sjá fallega umhverfið hjá litla englinum okkar.

Nú er tæplega eitt og hálft ár síðan þú kvaddir okkur elsku drengur. Alltaf líður tíminn.

Þetta ár ætlum við Eyrún Arna að halda áfram að minnast þín og halda minningunni þinni á lofti.




























Í vikunni hafði ég mig í það að skoða litlu skjátölvuna þína. Þar voru myndbönd sem þú tókst heima í Svölutjörn, á spítalanum og á leikskólanum sem ég hafði ekki séð áður. Þvílíkur fjársjóður að finna þetta, þetta var jólagjöfin mín frá þér elsku hjartað mitt. Þú hafðir svo mikinn áhuga á að mynda og búa til video til að horfa á seinna og sýna okkur í fjölskyldunni. Ég ætla að gefa mér tíma að skoða þetta allt á næstu dögum.



























Ég elska þig og sakna meira en orð fá líst.

Þín mamma