Wednesday, June 12, 2013

Þrálátt kvef og slím

Björgvin Arnar er búinn að vera kvefaður í rúmar tvær vikur og fyrst þá kom hitaskömm með þessu. Það munaði litlu að við færum á spítalann en það slapp fyrir horn í þetta skipti (7-9-13).

Það er alveg ferlegt þegar hann fær svona kvef. Það byrjar á því að súrefnisþörfin hans eykst til muna og fór hann úr rúmum einum lítra í 3 lítra, þá sérstaklega á nóttunni. Á hverjum morgni þá er honum óglatt vegna slíms í hálsinum og gubbar yfirleitt annað hvort um leið og hann vaknar eða þegar hann er búinn að fá næringuna sína og borða morgunmat.

Hann er búinn að hósta gífurlega mikið og tekur þetta mjög á hann. Þegar hann fær svona kvef þá skiptum við frá venjulegu pústi yfir í púst í vél og gefum honum vel af því. Eftir að hann er búinn að fá pústið þá bönkum við hann vel á lungnasvæðið til að reyna að hjálpa honum að losa upp slímið og koma því út.

Í seinustu viku þá fékk hann stera til að reyna að stöðva slímmyndun og einnig til að þynna slímið svo að hann eigi auðveldara með að hósta því upp. Hann verður alltaf svo slæmur á sterunum. Strax á fyrsta degi þá fóru þessi svokölluðu köst (episodes) að segja til sín þó svo að hann hafi ekki fengið stóran steraskammt. Einnig verður hann voðalega lítill í sér og það er eins og allur kraftur er farinn úr honum, mjög slappur og þreyttur. Svitnar svakalega mikið á nóttunni. Um leið og hann hættir að fá stera þá fara þessi einkenni um leið.

Nú vona ég að þetta kvef sé á undanhaldi svo að hann geti farið að njóta sumarsins almennilega.















Það nýjasta nýtt er að hann hefur sýnt áhuga á að fara í afmæli hjá vinum sínum af leikskólanum. Áður vildi hann ekki fara og ef hann vildi fara þá þoldi hann ekki við nema í nokkrar mínútur vegna hávaðans. En núna þá vill hann fara og alls ekki fara heim fyrr en afmælið er búið. Hann nýtur sín svo vel.

Þarna sést sjaldgæf sjón - Björgvin Arnar að fá sér köku og sleikir kremið af gafflinum :-D
Við hliðina á honum vinstra megin er Njörður vinur hans af leikskólanum. Því miður er hann að flytja í burtu og mun ekki fara í skólann með honum. En hann sagði við mömmu sína í vikunni "Mamma, þar sem ég fer ekki með Björgvini Arnari í Akurskóla, hver á þá að vernda hann? Ég verð að spyrja Andreu um að gera það". Þvílík góður vinur sem hann á þarna og sorglegt að hann sé að flytja í burtu, reynum að halda sambandinu samt :)

Kær kveðja úr Svölutjörn,
Ásdís, Björgvin Arnar og Eyrún Arna

2 comments:

Anonymous said...

Það er nú ekki slæmt að eiga Björgin sem vin, þennan eðaldreng :)

Vonandi fer allt uppávið með hækkandi sól og sumri :)

Kv,
Hrannar

Anonymous said...

Þetta er meiri baráttan hjá ykkur hetjunum alltaf hreint. Sjá hvað hann er flottur með vinunum og súkkulaðiköku á kantinum, duglegastur! :-)

Bjarki