Í morgun fékk Björgvin nýjan legg þar sem lungnaskanninn sem var áætlaður krefst þess til að setja efni í æð til að geta rannsakað blóðflæðið í lungunum. Nú er verið að reyna að klára allar þær rannsóknir sem fyrst svo að við getum farið af spítalanum.
9:30 - Kyngjurannsókn (Swallow study)
10:00 - Nýr leggur (tekinn úr aftur seinni partinn)
11:00 - Lungnaskanni
13:00 - Augnlæknir
Út úr kyngjurannsókninni kom að Björgvin getur ekki kyngt venjulegum vökva eins og vatn og mjólk nema að það sé sett þykkingarefni í vökvann. Bólgurnar í hálsinum eru ekki farnar og honum svelgist hrikalega á þunnum vökva en sem betur fer nær hann að hósta honum upp aftur. Þetta mun lagast á svona tveimur vikum í viðbót, vonandi!
 |
Catherine Allan læknirinn okkar og Julia |
Við ræðum við læknana um niðurstöðurnar úr lungnaskannanum á morgun en augnlæknirinn sagði okkur ekkert sem við ekki vissum nema að gleraugun hans Björgvins eru alltof sterk, hann er með +8 en á að vera með +4, sem eru ágætar fréttir.
Við Björgvin fórum á leikstofuna í dag og lékum okkur við lestirnar og að elda mat, eða réttara sagt að hella upp á kaffi, svo var stefnan tekin út um allt sjúkrahús á babú bílnum fræga. Björgvin var alsæll, vildi fara upp og niður í lyftunni og skoða lífið. Hann er þó ekki búinn að fá fullan kraft ennþá og er óstyrkur þegar hann gengur, það kemur á næstu dögum.
Stefnan er svo tekin á að hafa rólegan dag á morgun og á fimmtudaginn verður kaloríurannsókn og svo megum við líklegast fara af spítalanum, jeij! Það er eiginlega ótrúlegt að vera farin að sjá fyrir endann á þessu og nálgast það að komast heim.
Maraþonkveðja,
Ásdís og Björgvin Arnar