Thursday, August 26, 2010

Home sweet home

Við Björgvin komum heim í gær, mikið var það gott, alltaf er jafn gott að koma heim.

Samt verð ég að segja að dvölin á Barnaspítalanum er ekki alslæm. Allt fólkið sem vinnur þar, læknar, hjúkkur, sjúkraliðar og annað aðstoðarfólk er alveg dásamlegt upp til hópa. Öll aðstaða er til fyrirmyndar. Þetta skiptir allt miklu máli þegar maður er alltaf ein með Björgvin á spítalanum, fólkið er mikill stuðningur og svo má ekki gleyma ættingjum og vinum sem koma og heimsækja okkur!

Leikstofan er mest spennandi hjá Björgvini, sko fyrir utan babú bílinn sem hann vill ferðast á hvort sem það er á klósettið á stofunni eða fram í matsal eða á leikstofuna. Á leikstofunni vinna þrír leikskólakennarar og eru þær í miklu uppáhaldi hjá Björgvini. Honum finnst mest gaman að elda matinn en svo var að koma nýr bíll sem gengur fyrir rafmagni og hann stígur á bensíngjöfina og hann þýtur áfram.


Björgvin var svo ánægður þegar leggurinn í handleggnum var tekinn, reyndar ekki á meðan á því stóð en á eftir gat hann notað báðar hendur og farið í bað! vúhú.

























Nú erum við mæðgin heima og erum búin að borða morgunmat, mála mynd, kubba stórt hús og horfa á Latabæ. Ekki slæm dagskrá það.

Eigið góðan dag kæru vinir.
Ásdís

Monday, August 23, 2010

Kurteisi snúðurinn

Sæl veriði og nú er frekar langt um liðið síðan seinast, en mikið hefur verið að gera að koma öllu í rútínu eftir sumarfrí.

Það verður að segjast að Björgvin Arnar bræðir alla og þá sérstaklega hjúkkurnar hér á barnaspítalanum. Björgvin er með lungnabólgu og varð smá dramatík á laugardagnóttina þegar hann var að metta frekar illa að við komum hingað á spítalann með sjúkrabíl.

Björgvin þakkar fyrir allt sem honum er boðið eða þarf að gera við hann:
- Nú þarf ég að mæla þig aðeins - Já takk
- Viltu fá mjólk að drekka - Já takk
- Má ég gefa þér púst - Nei takk
- Voðalega ertu duglegur - Takk takk.

Kurteisara barn hafa þau bara aldrei vitað um, enda uppeldið alveg einstakt haha ónei, prinsinn minn er einstakur! :)

Nú er staðan sú að hann mettar vel á daginn og þarf því ekki súrefni en hann þarf það á nóttunni og er hann að fá stera og sýklalyf í æð og vonandi kemst hann yfir þetta fljótlega svo að við getum farið heim.

Alltaf er hann glaður og ánægður, nægjusamur er strákurinn og mikill gleðigjafi.

Ég var að hugsa það um daginn hvaða tilfinning er best, hvenær er það sem manni líður best og getur lokað augunum og notið stundarinnar. Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að það er þegar ég get verið heima hjá mér á kvöldin slappað af eða verið að gera eitthvað annað þegar barnið manns er sofandi inni í rúmi, hreint og fínt og mett og líður vel. Ekkert er betra í þessum heimi, svo einfalt er það.

Kveðja frá Barnaspítala Hringsins,
Ásdís og Björgvin Arnar