Elsku Björgvin minn, tilhugsunin að fá aldrei að halda á þér, faðma þig og kyssa er stundum óbærileg. Þú skilur eftir þig mikið tómarúm í mínu hjarta. Þú varst svo mikill og fallegur persónuleiki. Hlýjan og gleðin sem streymdi frá þér allan daginn var mín lífsfylling.
Nú þegar ég vakna á morgnana þá sakna ég þess að hafa þig ekki við hliðina á mér og bíða eftir að þú bjóðir mér góðan daginn og kyssir mig. Allar pælingarnar og brandararnir okkar uppi í rúmi áður en við fórum fram á morgnana. Oft vildir þú fá að hringja í afa og ömmu á meðan við vorum að kúra og þá varstu að segja þeim frá því hvernig dagurinn myndi verða og þeirra hlutverk í honum.
Þú varst svo mikill dundari og hugsuður. Hafðir svo gaman af því að teikna/skrifa og föndra. Þú horfðir á Latabæ, Dodda, Dóru og Lalla og fórst svo að teiknitöflunni þinni og teiknaðir heim teiknimyndanna eftir þínu höfði. Algjör listamaður.
Að hafa þig ekki lengur hjá mér er svo óskiljanlegt og ósanngjarnt. Þessi mynd lýsir okkar sambandi svo vel, þetta bros frá þér var ómetanlegt.
Að minnast þín er gott og mikið á ég góðar og skemmtilegar minningar sem hlýja mér um hjartarætur þegar sorgin þyrmir yfir mig.
Að lifa án þín er erfitt. Þú varst svo stór hluti af mínu lífi og nú ertu farinn. Það tekur tíma að læra að lifa með því að hafa misst þig.
Þetta myndband var tekið á spítalanum rúmri viku áður en þú kvaddir þennan heim. Mikið er ég glöð að eiga þetta myndband af þér, þvílíkur fjársjóður! Tókst ekki að setja myndbandið almennilega inn hér, set það á Facebook.
Ég elska þig endalaust, lengst út í geim og til baka og aldrei stoppa. (eins og við sögðum alltaf við hvort annað).
Þín mamma.
5 comments:
Úfff Ásdís... Mikið er þetta fallegt, og mikið sakna ég hans rosalega..!
Hann á eftir að vera alltaf í hjarta mans, það sem hann lyfti upp öllu bara með brosinu sínu og hlátrinum.
Knús á þig :*
Allý
Ásdís mín, ég var einmitt að hugsa til þín í morgun. Hvernig þú hefðir það og hvað þú ert dugleg. Ég efast ekki um það í eina mínútu að mikið tómarúm og söknuður sé hjá þér, skiljanlega. Farðu vel með þig!
kv. Sirrý Jónasar
knús elsku Ásdís :) <3
Þú gafst honum alla þessa gleði og hlýju með þinni einstöku ást og umhyggju elsku Dísa mín <3
Knús, Bjarki
Það sem Bjarki sagði!
Hlýjan og gleðin í honum endurspeglaði það sem hann fékk frá yndislegu mömmunni sinni.
Knús í hús elskan, við hugsum oft til þín <3
Sunna og co
Post a Comment