Sunday, January 30, 2011

Júróvísion partý á spítalanum

Björgvin er allur að hressast en er ennþá með súrefni, þetta ætlar að taka langan tíma hjá okkur í þetta skiptið. Amma, afi og Andrea Björt komu til okkar á spítalann í gær og voru allan daginn hjá okkur, við pöntuðum pizzu og horfðum á söngvakeppnina í sjónvarpinu. Björgvin var alsæll með góðan félagsskap og svo fékk hann snakk í skál, jólasnakk eins og hann kallar það.



















Við styttum okkur svo stundir og flökkum hér um hæðirnar, göngu gangana mörgum sinnum á dag og stoppum svo á hæðinni hjá leikstofunni og spilum á píanó.
























Það skemmtilegast á spítalanum er að fara í sjúkraþjálfun til Helgu og Birnu, hann byrjar að spyrja  um þær um leið og hann opnar augun á morgnana. Þar getur hann trommað og leikið við mörg skemmtileg leikföng og svo finnst honum pínku þægilegt að láta banka sig og svo hóstar hann kröftuglega á eftir.



Nú værum við alveg til í að komast heim til okkar, þetta er alveg orðið gott í bili. En þetta kemur víst með hænuskrefum og jákvætt að þau eru bara fram á við núna en ekki aftur á bak :)

Við þökkum öllum sem hafa komið til okkar, t.d. komu Ragga og Gunna Vala, Bjarki, Hólmar, amma, afi og Andrea Björt, Sigga Maja, Hrund og stelpurnar. Takk fyrir okkur, það munar öllu að fá svona góðar samverustundir.

Knús frá okkur.
Ásdís og Björgvin Arnar




Wednesday, January 26, 2011

Mig langar í mat!

það er ekkert smá yndislegt að heyra þessi orð! Algjör draumur :) Sérstaklega eftir seinustu daga sem eru búnir að vera mjög erfiðir.

Björgvin var mjög slæmur í önduninni á mánudaginn, fórum í lungnamyndatöku og kom í ljós að hann var með mikinn vökva í lungunum og fékk auka vatnslosandi skammt, og reyndar fær hann auka svoleiðis skammt á hverjum degi núna.

Í dag er fyrsti dagurinn sem er betri og honum líður betur. Ég fékk alla vega bros frá honum og hann gekk 20 skref, hann er ekki búinn að vilja ganga í tvo daga, og svo borðar hann betur.

Hann fór í bað áðan og er allur hreinn og fínn og líður vel hjá mömmu sinni.
























Ég var að grínast í honum áðan og hann sagði, "mamma, hættu þessu, þetta er ekkert fyndið!" - hahaha hann hefur greinilega alveg misst húmorinn í veikindunum, því að betri brandara hef ég aldrei sagt ;)

Margir góðir gestir hafa komið til okkar seinustu daga, meðal annars komu amma og afi og Andrea Björt, Ester og Hjalti, Hrund og dætur, Tinna, Hólmar og svo Bjarki. (Ég biðst afsökurnar ef ég gleymi einhverjum :)

Kærar kveðjur til ykkar,
Ásdís og Björgvin Arnar

Sunday, January 23, 2011

Þrálát lungnabólga

Nú erum við á sjöunda degi á spítalanum og Björgvin þarf ennþá súrefni allan sólarhringinn. Sýkingin er að mestu farin en slímið er ennþá í lungunum en farið að losna aðeins, þannig að hann hóstar svakalega mikið og það tekur mjög á hann.

Seinustu þrjá daga hefur hann verið alveg úrvinda og slappur, varla búinn að tala neitt og vill bara liggja í rúminu. Hann er máttfarinn og borðar varla neitt.

En í dag hefur hann talað smá og náði ég að setja hann í bað sem hressti hann aðeins við. Vonandi fer þetta að batna og vera einungis upp á við hér eftir. Hann gat verið án súrefnis í 30 mín í morgun svo að þetta er eitthvað í áttina.

Margir góðir vinir og ættingjar hafa komið til okkar og veitt okkur félagsskap, aðstoð og komið með mat. Má þar nefna mömmu mína og pabba, Óla bróðir, Bjarka, Rakel, Ester, Röggu, Hönnu Maríu, Nínu og Hólmar (vonandi er ég ekki að gleyma einhverjum!). Þetta bjargar okkur alveg að fá þennan stuðning, já eins og ég nú oft sagt þá er gott að eiga góða að, sérstaklega þegar ég ber ábyrgðina og stend allar vaktir ein.

Rakel vinkona mín kom með mat núna í hádeginu, sjáið kræsingarnar :)


Mmmm þokkalega gott að fá svona heimsókn :)

Kærar kveðjur frá barnaspítalanum.
Ásdís og Björgvin Arnar

Thursday, January 20, 2011

Gleðilegt nýtt ár!

Jæja það er betra seint en aldrei að koma með nýárskveðju og stimpla sig inn í nýja árið almennilega. En nú læt ég hana flakka.

Þegar nýtt ár kemur þá lítur maður yfir það gamla og hugsar um hvað það er sem stendur upp úr. Veikindi Björgvins standa tvímælalaust upp úr og það að flytja í húsið okkar, jólin voru líka mjög góð þar sem engar áhyggjur voru af Björgvini og jólin í húsinu okkar eru engum lík. Bestu jólin okkar í mörg ár!

Það sem ég þakka fyrir er að eiga marga vini og góða fjölskyldu. Þegar veikindi Björgvins stóðu sem hæst og við vorum á spítalanum í rúma tvo mánuði samanlagt þá komu margir til okkar og styttu okkur stundirnar og aðstoðuðu á einn og annan hátt. Þetta er ómetanlegt og þakka ég ykkur öllum fyrir stuðninginn og hlýhuginn á þessum erfiðu tímum. Seinasta ár var það erfiðasta í mínu lífi og vonandi mun ekkert ár toppa þetta, bara betri ár framundan :)

Hér kemur ein mynd af okkur við jólatréð.





En árið byrjaði ekki nógu vel, við erum núna á spítalanum og er Björgvin með lungnabólgu. Hann þarf súrefni á nóttunni og á daginn. Vonumst til að komast heim sem fyrst.

Kær kveðja til ykkar kæru vinir.
Ásdís og Björgvin Arnar