Friday, January 24, 2014

Fallegt ljóð

Með fallegri ljóðum ...

Að lifa er að gefa hér bæði margt og mikið,
að magna hverja hugsun sem fegurð lífsins á,
að geta náð að skynja af alúð augnablikið;
þá ást sem býr í brjósti er stundir líða hjá.

Ef hugsunin er fögur og fær mig til að tárast
þá titra í mér hjartað og sálin flýgur sátt,
því lífið hefur tilgang í ást sem aldrei klárast
en ævinlega blómstra á lífsins besta hátt.

Ég mína trú á tilgang og fegurð fæ að játa
svo fagna ég því öllu sem lífið veitir mér.
Ef hjartað þiggur hlýju af gleði má ég gráta
og gjöfum lífsins deili ég auðvitað með þér.
~ Kristján Hreinsson

Monday, January 20, 2014

Vonin

Á þessum tíma fyrir um ári síðan þá var ég við það að missa vonina á að Björgvin myndi öðlast betri heilsu. Þá beið ég eftir niðurstöðu blóðrannsóknar sem var send til Bandaríkjanna hvort hann væri með tiltekinn sjúkdóm sem læknarnir töldu 99% líkur á.

Ég vissi að ef staðfesting kæmi þá væri engin von.

Árin á undan voru ólýsanlega erfið en alltaf hélt ég áfram baráttunni þar sem ég átti von sem var minn kraftur í að hlúa að Björgvini í einu og öllu. Ég hélt svo fast í hana. En svo fékk ég að lifa lífinu án vonar. Að finna vonleysið og berjast við hugann sem leitaði í neikvæðar hugsanir um hvað framundan væri. Mikilvægt var að gera sér grein fyrir því að allar hugsanirnar áttu rétt á sér þó svo að best væri að reyna að hafa hemil á þeim og lifa fyrir hvern dag. Mikilvægt var að láta sorgina ekki ná tökum á sér og ekki sökkva sér djúpt í hana á hverjum degi.

Þessir smáu hlutir, brosin og fallegu orðin voru þá dýrmæt.

Frasar frá Björgvini:

Björgvin: Afi, átt þú náttföt?
Afi: Já já
Björgvin: en a amma náttföt?
Afi: Já já.
Björgvin: Já svona alveg eins og ég? með beinagrind á?

Allý: hver krotaði á vegginn?
Björgvin: það var einhver krakki sem gerði það.

Mamma: Þú ert strákurinn minn.
Björgvin: Já en Magga á mig líka.

Björgvin: Mamma, þegar þú ert dáin þá getur þú ekki staðið, labbað, sitjið, hlægjið og tiplað á tám upp fjall.

Mamma: Hvað viltu læra þegar þú ferð í tónlistarskóla?
Björgvin: Harmonikku eða horn.

Björgvin: Mamma, erum við lengi í helgarfríi?
Mamma: Já í tvo daga.
Björgvin: Nei, mig langar að vera lengi lengi lengi í helgarfríi, alveg í hálftíma! :)



















Ást
Ásdís og Eyrún Arna

Wednesday, January 1, 2014

Árið er liðið ...

Nú er árið 2013 liðið. Þegar ég lít til baka þá veit ég hreinlega ekki hvað ég á að segja um þetta ár. Ef hægt er að tala um að eitthvað sé ljúfsárt þá var þetta ár þannig. Árið sem hamingja og sorg mættust.

Í febrúar þá fékk ég staðfest að Björgvin væri með þann sjúkdóm sem læknarnir héldu eftir mikla yfirlegu. Að fá þessa staðfestingu var mikið sjokk, ekki þessi léttir að vita loksins hvað væri að eins og fólk sagði oft að væri. Líklegast var það vegna þess að útlitið var ekki gott og þessi vitneskja staðfesti að ekkert væri í raun framundan hjá Björgvini mínum. Í öll þessi ár var ég alltaf að bíða eftir að ástandið myndi batna, annað hvort hann myndi fá betri heilsu eða niðurstaða sjúkdómsgreiningar væri þannig að eitthvað væri hægt að gera fyrir hann. Annað var óhugsandi og ósanngjarnt.

Á sama tíma og ég fékk þessar hræðilegu fréttir að Björgvin minn væri með skertar lífslíkur, þar sem 50% barna með þennan sjúkdóm lifa ekki lengur en 5 ár, þá kom Eyrún Arna í heiminn. Það er eiginlega ólýsanlegt að upplifa svona hamingju að fá barn í fangið á meðan hinu barninu er ekki hugað líf.

Næstu mánuðir voru erfiðir. Heilsa Björgvins fór versnandi og var sumarið þannig að ég hugsaði stundum með mér að þetta gæti ekki gengið lengur. Þá er nú mikið sagt. Þrátt fyrir sjúkdómsgreininguna þá bjóst ég aldrei við að endalokin myndu koma svona fljótt. Ég bjóst samt ekki við að hann myndi vera hjá mér allan veturinn en þegar það fór virkilega að halla undan fæti þá gerðist það hratt.

Seinustu dagarnir voru þannig að honum var farið að líða mjög illa og átti mjög erfitt með að draga andann. Þetta á ekkert foreldri að þurfa að ganga í gegnum eða horfa upp á. Þegar ástandið er orðið það slæmt að maður hugsar sér að dauðinn sé ekki alltaf verstur þá er það slæmt.

Tíminn frá andláti Björgvins hefur verið skrítinn. Ég hef þurft að læra að lifa lífinu í allt öðru mynstri en ég er vön seinustu ár. Söknuðurinn er mikill. Stundum á ég erfitt með að átta mig á því að ég eigi aldrei eftir að halda honum í fangi mínu og segja honum hve heitt ég elska hann. Óraunverulegt. Minningarnar lifa og þær eru margar dásamlegar og ómetanlegar.

Í gær þá kvaddi ég þetta ár. Þetta ár sem ég eignaðist barn og missti barn. Einu tímabili í mínu lífi er lokið og annað er hafið. Ég kvaddi þetta ár með blendnum tilfinningum með mínum bestu og dýrmætustu.


























En tek jafnframt á móti nýja árinu með hlýju og ást í hjarta. Björgvin hefði viljað að mömmu sinni og systur liði vel og hjá okkur væri mikið um gleði og hlátur eins og einkenndi okkar samskipti og líf.

Ást til ykkar allra og munið að njóta hvers dags með þeim sem ykkur þykir vænt um.

Ásdís og Eyrún Arna