Einnig tók Óli upp alla tónlistina sem var í kirkjunni, sem ég á ennþá eftir að hafa mig í að hlusta á. Ég hlakka til að hlusta á þetta og hugsa um Björgvin minn einn góðan veðurdag.
Þessir tímar eru skrítnir og stundum óraunverulegir. Þegar maður gengur í gegnum svona sorgarferli er margt sem hefur áhrif á mann. Ég er reyndar búin að ganga í gegnum sorgarferli í mörg ár. Mín stærsta og helsta sorg seinustu ára var að hugsa til þess að líkami yndislega drengsins míns væri að bregðast honum. Hann sem var svo klár og dásamlegur og átti sína drauma, vonir og þrár og ekkert af því gat ræst. Þegar hann söng lag með Skoppu og Skrítlu sem fjallar um að eiga sína drauma og geta allt sem maður vill. Mig sveið í hjartað.
Seinustu vikur og mánuði hefur fólkið í kringum mig sýnt mér gífurlega umhyggju og hlýju. Gott er að finna það og allan þann stuðning sem samfélagið hér í Keflavík hefur sýnt mér.
Þegar raunveruleikinn og sorgin skellur á manni þá sér maður hlutina í öðru ljósi. Að ganga í gegnum svona raunir þroskar mann og breytir. Ekkert er eins og það var. Þó svo að maður vonist til þess á hverjum morgni. Þegar ég lít til baka þá skil ég ekki stundum hve róleg og yfirveguð ég gat verið á stundum sem tóku svo sannarlega á og þá sérstaklega í samskiptum við fólk. Heildarmyndin blasir við manni og tilgangurinn með annarri hegðun verður enginn.
Takk elsku bróðir fyrir þessar góðu minningar sem ég get alltaf átt.
Ásdís