Wednesday, October 23, 2013

Minningar

Bróðir minn, Óli, bjó til þetta flotta albúm handa mér með myndum úr jarðaförinni, erfisdrykkjunni og fleiru. Ótrúlega flott og dýrmætt að geta flett þessu og minnst fallegu útfararinnar og alls þess góða fólks sem var með mér þennan dag.














Einnig tók Óli upp alla tónlistina sem var í kirkjunni, sem ég á ennþá eftir að hafa mig í að hlusta á. Ég hlakka til að hlusta á þetta og hugsa um Björgvin minn einn góðan veðurdag.














Þessir tímar eru skrítnir og stundum óraunverulegir. Þegar maður gengur í gegnum svona sorgarferli er margt sem hefur áhrif á mann. Ég er reyndar búin að ganga í gegnum sorgarferli í mörg ár. Mín stærsta og helsta sorg seinustu ára var að hugsa til þess að líkami yndislega drengsins míns væri að bregðast honum. Hann sem var svo klár og dásamlegur og átti sína drauma, vonir og þrár og ekkert af því gat ræst. Þegar hann söng lag með Skoppu og Skrítlu sem fjallar um að eiga sína drauma og geta allt sem maður vill. Mig sveið í hjartað.

Seinustu vikur og mánuði hefur fólkið í kringum mig sýnt mér gífurlega umhyggju og hlýju. Gott er að finna það og allan þann stuðning sem samfélagið hér í Keflavík hefur sýnt mér. 

Þegar raunveruleikinn og sorgin skellur á manni þá sér maður hlutina í öðru ljósi. Að ganga í gegnum svona raunir þroskar mann og breytir. Ekkert er eins og það var. Þó svo að maður vonist til þess á hverjum morgni. Þegar ég lít til baka þá skil ég ekki stundum hve róleg og yfirveguð ég gat verið á stundum sem tóku svo sannarlega á og þá sérstaklega í samskiptum við fólk. Heildarmyndin blasir við manni og tilgangurinn með annarri hegðun verður enginn.

Takk elsku bróðir fyrir þessar góðu minningar sem ég get alltaf átt.

Ásdís


Saturday, October 5, 2013

Að lifa án þín

Í dag er mánuður frá því að litli drengurinn minn var borinn til grafar á björtum og fallegum degi.

Elsku Björgvin minn, tilhugsunin að fá aldrei að halda á þér, faðma þig og kyssa er stundum óbærileg. Þú skilur eftir þig mikið tómarúm í mínu hjarta. Þú varst svo mikill og fallegur persónuleiki. Hlýjan og gleðin sem streymdi frá þér allan daginn var mín lífsfylling.

Nú þegar ég vakna á morgnana þá sakna ég þess að hafa þig ekki við hliðina á mér og bíða eftir að þú bjóðir mér góðan daginn og kyssir mig. Allar pælingarnar og brandararnir okkar uppi í rúmi áður en við fórum fram á morgnana. Oft vildir þú fá að hringja í afa og ömmu á meðan við vorum að kúra og þá varstu að segja þeim frá því hvernig dagurinn myndi verða og þeirra hlutverk í honum.

Þú varst svo mikill dundari og hugsuður. Hafðir svo gaman af því að teikna/skrifa og föndra. Þú horfðir á Latabæ, Dodda, Dóru og Lalla og fórst svo að teiknitöflunni þinni og teiknaðir heim teiknimyndanna eftir þínu höfði. Algjör listamaður.

Að hafa þig ekki lengur hjá mér er svo óskiljanlegt og ósanngjarnt. Þessi mynd lýsir okkar sambandi svo vel, þetta bros frá þér var ómetanlegt.




Að minnast þín er gott og mikið á ég góðar og skemmtilegar minningar sem hlýja mér um hjartarætur þegar sorgin þyrmir yfir mig.

Að lifa án þín er erfitt. Þú varst svo stór hluti af mínu lífi og nú ertu farinn. Það tekur tíma að læra að lifa með því að hafa misst þig.

Þetta myndband var tekið á spítalanum rúmri viku áður en þú kvaddir þennan heim. Mikið er ég glöð að eiga þetta myndband af þér, þvílíkur fjársjóður! Tókst ekki að setja myndbandið almennilega inn hér, set það á Facebook.

Ég elska þig endalaust, lengst út í geim og til baka og aldrei stoppa. (eins og við sögðum alltaf við hvort annað).

Þín mamma.