Monday, December 24, 2012

Gleðileg jól

Mikil spenna er hér út af jólapökkunum, erfitt reynist að bíða eftir því að kvöldið komi til að taka upp pakkana, einsog gengur og gerist.

























Björgvin Arnar er svipaður í mettuninni og er með súrefni allan sólarhringinn. Við fengum nýtt púst til að gefa honum einu sinni á dag sem á að þynna slímið í lungunum, þar sem það eru leiðinlegir slímtappar að koma í veg fyrir að hann losni við súrefnið. Nú erum við búin að nota þetta púst í þrjá daga en sjáum engan mun ennþá, einnig erum við að banka hann til að reyna að hrista upp í lungunum, losa upp það sem þarf. Þetta mun vonandi bera einhvern árangur.


















Við ætlum að reyna að gleyma veiknindum og njóta jólanna saman með ömmu og afa sem koma í mat til okkar í kvöld.

Við óskum ykkur gleði- og gæfuríkrar jólahátíðar kæru vinir og ættingjar. Þökkum stuðninginn á árinu sem er að líða, allan þann hlýhug sem þið hafið sýnt okkur og þökkum ykkur einnig fyrir að fylgjast svona vel með blogginu okkar.

Gleðileg jól!
Ásís og Björgvin Arnar

Thursday, December 13, 2012

Ennþá með súrefni allan sólarhringinn

Engin breyting hefur orðið á mettuninni síðan við komum heim af spítalanum þann 16. nóvember, í tæpan mánuð. Reyndar sýndi lungnamynd sem var tekin um daginn að lungun litu betur út þannig að nú reynir á þolinmæðina.

























Það er ekki létt að vera fastur heima og með súrefnisslöngu tengda sér allan sólarhringinn. Einangrunin er mikil.  Það er bara ótrúlegt hve drengurinn er skapgóður og tekur þessu öllu vel. Það er nú tilbreyting í því að fá Allý á morgnana sem föndrar með honum og leikur við hann. Svo eftir hádegið þá koma afi og amma sem reyna eins og þau geta að gera daginn líflegan og skemmtilegan.

Í gær fór afi með Björgvin á róló þar sem veðrið var svo gott, hann rólaði og rólaði alsæll. Í dag fór afi með hann í heimsókn á leikskólann og voru krakkarnir svo ánægðir að sjá hann og Björgvini fannst þetta algjörlega æðislegt. 

Það tekur á að heyra svona "Mamma, þegar ég verð frískur og losna við súrefni, þá má ég fara á leikskólann?" 

Við förum til læknisins í skoðun í næstu viku. Vonandi fer þetta eitthvað að koma hjá okkur, nú nálgast jólin og það yrði besta jólagjöfin að Björgvin myndi losna við súrefnið, maður má alltaf halda í vonina!!!

Ásdís og Björgvin Arnar

Tuesday, December 4, 2012

Besti afinn á afmæli í dag

Elsku besti pabbi minn á afmæli í dag. Hann á stórafmæli, er sjötugur, en lítur sko alls ekki út fyrir það. 

















Afi og amma eru okkur Björgvini ómetanleg stoð og stytta. Þau eru mér alltaf innan handar, hvað varðar pössun, útréttingar og allt sem fellur til. Staðan er sú að ekki allir geta passað Björgvin, vegna umönnunar og lyfja. Ég hef bara þau og Allý, bestu barnapíu í heimi, til að passa prinsinn. Ég veit ekki hvaða öfl það voru sem sendu hana til okkar. En öryggi hans skiptir öllu og líka svo að ég geti hugsað mér að fara frá honum þá verð ég að vera örugg til að geta slakað á þegar ég er ekki heima.

Pabbi leysir öll þau verkefni hér heima sem þörf er á, fer í apótekið og í allar útréttingar sem þarf. Hann passar drenginn með mikilli ástúð og hlýju og er ótrúlega duglegur með allt sem þarf að læra á, bæði tæki og lyf sem nauðsynlegt er að vera með á hreinu. 

Björgvin eyddi dágóðri stund á leikstofunni á Barnaspítalanum í morgun að föndra gjöf handa afa sínum og þetta vildi hann skrifa í kortið til hans.

Afmæliskort til afa:
Elsku afi minn,
til hamingju með 70 ára afmælið þitt
Mér þykir svo vænt um þig
Ég elska þig
Þú ert besti vinur minn
Þinn Björgvin Arnar
Bílabraut

Elsku pabbi og afi, til hamingju með daginn þinn, takk fyrir allt og allt :-*

Þín Ásdís og Björgvin Arnar

Saturday, December 1, 2012

Blóðgjöf eftir blóðnasir

Þessi krúttmoli fékk svo miklar blóðnasir á fimmtudagskvöldið að hann fór úr blóðgildi 110 í 76! Eins gott að við áttum tíma í gær hjá lækni þar sem blóðgildið var mælt. Enda leið honum ekki vel, var náfölur, þreyttur og  slappur, litla skinnið mitt.



















Pabbi hans þurfti að fara með hann beint niður á bráðamóttöku og leggjast inn í nótt á meðan hann fékk blóðgjöf í tveimur skömmtum. Þetta mun pottþétt gera honum gott.

Blóðþynningargildi hans var aðeins í hærri kantinum á fimmtudaginn en ekkert þannig samt, oft verið svona áður. Ástæðan fyrir blóðmagninu og að þetta stoppaði bara eftir 4 tíma.

Ásdís og Björgvin Arnar

Thursday, November 29, 2012

Jólaklippingin

Björgvin Arnar fór í jólaklippinguna í dag. Það var alveg kominn tími til að fara í klippingu eftir langa spítalavist, hann var orðinn algjör lubbi.

























Eins og vanalega var hann rosalega duglegur í klippingunni og fékk verðlaun sem hann gaf mömmu sinni, sleikjó :)

























Þrátt fyrir töffaragel þá fékk Björgvin blóðnasir í 4 klukkutíma í kvöld, gubbaði þvílíku blóði að sá sem er ekki vanur hefði fengið áfall. Vonandi er þetta hætt núna og vonandi mun nóttin verða góð hjá okkur.

Töffarakveðja,
Ásdís og Björgvin Arnar

Saturday, November 24, 2012

Útskrifuð með súrefni

Jæja þá erum við útskrifuð af spítalanum þrátt fyrir að Björgvin þurfi súrefni allan sólarhringinn. En við komum í reglulega skoðun og eftirlit, næst eftir viku.

Björgvin jafnaði sig fljótt á þessum köstum sem sterarnir framkalla þegar þeirri lyfjagjöf var hætt og er orðinn líkur sjálfum sér. Hann varð aðeins betri í mettuninni en ekki nóg til að losna við súrefnið.

























En það er mikið gott að vera heima þó svo að það séu líka mikið viðbrigði þar sem ekki er eins mikið um að vera hér heima og á spítalanum. En við reynum að fá góða vini í heimsókn og í vikunni kom Magga leikskólakennari með þrjú börn með sér til að heimsækja Björgvin. Einnig fékk Björgvin Magnús vin sinn í heimsókn.


















Það eru líka viðbrigði fyrir mömmuna að vera komin heim, bæði gott og svo dálítið erfiðara. Það er mikið verk að halda heimili og vera í stöðugri umönnun með strákinn sinn. En að vera með hann heima er dásamlegt og ekki annað hægt að sofna þreytt en ánægð á hverju kvöldi :)

Amma að leika við Björgvin Arnar, gott að sjá þau í þessum leik, uppáhaldið hans Björgvin þegar amma kemur og leikur við hann inni í herbergi.


















Nú vilja læknarnir bíða aðeins, þ.e. að láta tímann lækna lungun, ekki beita frekari meðferð af lyfjum. Sjáum til hvernig það mun ganga en markmiðið er að ná honum af súrefninu alla vega að deginum til. Það yrði nú mikið frelsi og nálgast eðlilegt líf. Staðan verður tekin aftur föstudaginn 30. nóv. en á meðan mun ég taka stöðuna á mettuninni á hverjum degi og fylgjast með vigtinni og passa að hann drekki ekki of mikinn vökva.

 Björgvin fékk flensusprautu í gær og er ég ekki frá því að hann sé með smá eftirköst eftir það, nokkrar kommur og vanlíðan. Vonandi líður það fljótt frá.

Kær kveðja úr Svölutjörn
Ásdís

Wednesday, November 14, 2012

Heim í leyfi

Jæja þá erum við komin heim í leyfi frá spítalanum. Björgvin var svo spenntur að hann brann alveg út og sofnaði á leikstofunni í dag þannig að við komumst ekki heim fyrr en miklu seinna, snúðurinn.

Það er ekki laust við að mamman hafi fengið smá spennufall líka og tárast á leiðinni heim í bílnum. Það er svo ómetanlegt að geta fengið að vera heima hjá sér með barnið sitt. Ekkert er betra en að vera heima að dunda sér á meðan barnið sefur vært.

Sveppi heimsótti Björgvin á spítalann í gær, vá hann horfði alveg á hann með lotningu, ótrúlega ánægður með að fá að hitta hann.


















Björgvin er frekar slæmur af sterunum, fær svona köst (episodes, flog) þar sem hann verður alveg furðulegur og getur grátið mikið. Eftir á verður hann mjög þreyttur og stundum leggur hann sig aðeins. Núna með hverjum deginum mun steraskammturinn minnka, þannig að vonandi dregur úr þessum einkennum ásamt því að lungun verði betri. Engin leið er að skilja hann eftir hjá öðrum, mamman verður að standa vaktina alveg á meðan þetta stendur yfir.

Það eina sem komst að þegar við komum heim var að hringja í Agga frænda og fá hann í heimsókn og hann kíkti við um kvöldamatarleytið og vakti það mikla lukku.

Kær kveðja úr Svölutjörn
Ásdís og Björgvin Arnar

Tuesday, November 13, 2012

Á heim á morgun með súrefnisvél

Að öllu óbreyttu þá munum við fara heim á morgun, eftir hádegið, með súrefnisvélina með okkur. Vá hvað það verður mikil gleði hjá okkur að komast heim og sofa í rúminu okkar. Við verðum ekki útskrifuð og þurfum að koma á aftur á föstudaginn í skoðun og svo strax eftir helgi og svo eitthvað næstu vikur.

Tölvusneiðmyndin sem var tekin í gær sýndi bólgur og byrjaði Björgvin á sterakúr sem mun vara í nokkra daga. Við bindum vonir við að hann losni við súrefnið í framhaldinu, sterarnir virka vel á svona bólgur. Það versta er að hliðarverkanir á sterum eru flog, sem Björgvin fær þegar hann fær stóra skammta af sterum, en af tvennu illu er betra að fá flog í nokkra daga en að hafa bólgur í lungum, held að allir geti verið sammála um það. En það getur aldrei neitt verið auðvelt, það er nú bara einu sinni þannig.

Nú vonum við að þessi sterameðferð hjálpi honum að losna við súrefnið, krossum fingur.

Knús til allra sem hafa stutt okkur á þessari spítalavist, ómetanlegt er að eiga góða að!

Ásdís og Björgvin Arnar

Monday, November 12, 2012

4 vikur á spítalanum

Þó svo að Björgvin Arnar sé með mikið jafnaðargeð og sættir sig mikið við hvað sé í gangi þá á hann stundum pínku bágt og er orðinn leiður á að vera á spítalanum eftir svona langan tíma, alveg skiljanlegt og eðlilegt þó fyrr hefði verið.

En mikið er hann orðinn hress, hann leikur sér mikið og er aktívur, hleypur og hoppar um eins og sést á þessari mynd hér þá var hann að sýna einni hjúkkunni hvernig íþróttaálfurinn gerir almennilegar æfingar.















Það eina sem háir okkur núna er að Björgvin þurfi súrefni allan sólarhringinn. Hann er ekki með vökva í lungunum ennþá svo að læknarnir vita ekki af hverju staðan er eins og hún er. Það var tekin tölvusneiðmynd af lungunum áðan og fáum við niðurstöður úr henni í fyrramálið. Það á að reyna að fá einhver svör af hverju hann þarf á svona miklu súrefni að halda .

Annað hvort fást engin svör eða samfall í lungunum eða bólgur gætu sést, þá er til meðferð við því. En líklegt er að við fáum að fara heim í vikunni með súrefni þar sem börn með flensur eru að hrúgast inn á spítalann og það yrði ekki á það bætandi fyrir Björgvin að ná sér í svoleiðis, sýkingarhættan er mikil.

Þangað til næst :)
Ásdís og Björgvin Arnar

Monday, November 5, 2012

Besta afmælisgjöfin

Björgvin Arnar vaknaði og bauð mömmu sinni góðan dag og sagði svo "til hamingju með afmælið, mamma mín" og spurði svo "ertu þá smá stærri núna en í gær?" haha er nokkuð til meiri krútt?!?

Björgvin Arnar bjó til þessa fínu afmælisgjöf handa mömmu sinni á leikstofunni.














Þarna eru tvö súkkulaði stykki (voru reyndar fjögur, hvert fóru hin? hmmm) Listaverkin sem eru hlið við hlið eru dúkar sem eru skreyttir með búðarkassa, kaffikönnu, bolla og brauðrist. Svo fylgdi þetta fína kort. Svo söng strákurinn minn afmælissönginn fyrir mig og ég er ekki frá því að nokkur tár brutust fram.

Þetta var allt gert með vinstri höndinni þar sem sú hægri var upptekin með umbúðum vegna nálar, hann lætur það nú ekki að stöðva sig.

Af heilsunni er það að frétta að Björgvin er rosalega hress og virðist líða betur en mettunin er ennþá ekki nógu góð og súrefnið nauðsyn allan sólarhringinn. Við minnkuðum fæðuna í magasonduna enn meir og erum að reyna að koma honum af vatnslosandi lyfjum í æð. Þetta er verkefni næstu daga.

Afmæliskveðja
Ásdís og Björgvin Arnar

Sunday, November 4, 2012

Enginn árangur í nokkra daga

Staðan hjá okkur er svipuð og hún var fyrir nokkrum dögum. Reyndar fór Björgvin í hjartaómskoðun á föstudaginn sem kom betur út en sú sem var gerð seinustu helgi. Það er ekki alveg vitað hvort það er vegna minni vökva í lungum eða vegna þeirra nýju lyfja sem hann er að fá núna. En samt, allt gott er gott.

Þetta er ekki hægt að sjá á honum sjálfum samt, hann er ennþá með súrefnið, þó lítinn leka sem hann þarf ótrúlega mikið á að halda þar sem hann fellur alveg úr 100 niður í 82 þegar slökkt er á því.


















Björgvin Arnar er orðinn þreyttur á að vera á spítalanum og er farinn að láta sig dreyma um hvað hann ætli nú að gera þegar heim er komið.

Læknarnir geta ekkert sagt um hvernig þetta muni þróast, þeir eru eiginlega bara að klóra sér í hausnum yfir þessu öllu saman, af hverju er hann svona viðkvæmur í lungunum? það er stóra spurningin.

Með von um að þetta fari að koma hjá okkur!
Ásdís og Björgvin Arnar

Thursday, November 1, 2012

Góðir gestir til Björgvins Arnars

Dagurinn í dag byrjaði ekki fyrr en kl. 10:30 þar sem Björgvin fór svo seint að sofa í gærkvöldi vegna þess að það var stöðugt verið að taka blóðþrýsting vegna nýs lyfs og enginn friður fyrir snáðann. En fljótlega þá kemur fyrsti gestur Björgvins og var það hann Hringur ísbjörn. Hann vakti mikla lukku.

















Svo þegar líða tók á daginn þá mætti hetjan hans Björgvins Arnars, mikið var kúturinn minn glaður og dálítið feiminn til að byrja með. En íþróttaálfurinn sjálfur mætti á svæðið og gaf Björgvini mikinn tíma þar til feimnin fór og þeir spjölluðu um lífið í Latabæ.

























Íþróttaálfurinn sýndi listir sínar og sló rækilega í gegn hjá Björgvini og fleirum börnum sem eru hér á barnaspítalanum.

Þetta er nú ekki búið enn þar sem góðar vinkonur komu með mat til okkar Björgvins og stöldruðu við í dágóða stund hjá okkur. Takk kærlega fyrir okkur Sigga Maja og María Helen :-*


















Annars fékk Björgvin smá hitaskömm í dag og ekki er vitað af hverju hann stafar, það verður athugað með sýkingu í blóðprufum í fyrramálið. En annars er ekki mikið að frétta, það er verið að prófa þessi nýju lyf og ekki hefur mikill árangur gefist en samt verð ég að segja að það sé kannski hænuskref í góða átt, en maður þorir ekki að segja það þar sem það er ekki mikill munur á honum.

Við biðjum fyrir því að hann fari að lagast næstu daga, þetta er orðinn langur tími hér á spítalanum, næstum 3 vikur komnar.

Amma og afi komu í gær í heimsókn, enginn tími gafst til að blogga í gær, það er mikið að gera í umönnun og í kringum þessi nýju lyf sem verið er að prófa sig áfram með.

Kær kveðja og þakklæti frá okkur Björgvini Arnari

Monday, October 29, 2012

Viku til tíu daga plan

Ekki mikið að frétta af okkur á Barnaspítalanum. Lyfjunum var breytt í morgun, þ.e. blóðþrýstingslyfin voru minnkuð og einu hjartalyfi var bætt við sem á að létta á virkni hjartans og vera gott við svona vökvasöfnun. Björgvin mettar ennþá illa og notar súrefni og stynur smá við að anda.

Læknarnir ætla að gefa sér tíma í að þurrka lungun hans og skipta svo yfir af vatnslosandi í æð yfir í tölflur, áætla viku til tíu daga í þetta. Eins gott að þetta takist þá.
























Björgvini finnast gulubílarnir á spítalanum æðislega spennandi, hér er hann að prófa einn :)

Ásdís og Björgvin Arnar

Sunday, October 28, 2012

Fín lína

Björgvin Arnar er ótrúlega viðkvæmur fyrir vökva í líkamanum, eins og oft hefur komið fram, en núna er verið að gefa honum næringu í magasonduna (75% vökvi) og hann er greinilega ekki að höndla þennan vökva svona beint eftir aðgerð þar sem lungun eru ekki búin að jafna sig eftir aðgerðina.

Dagurinn í dag var ekki tíðindamikill hjá Björgvini, engin mikil breyting á honum til hins betra né til hins verra. Um miðjan daginn þá var ákveðið að gefa honum blóð þar sem blóðgildið var greinilega ekki eins gott að prufurnar sýndu í gær. Þegar blóð er gefið þá er náttúrulega verið að bæta vökva inn í líkamann. Það var fylgst vel með honum á meðan og þegar það voru 45 ml af 150 ml komnir inn í líkamann þá byrjaði blóðþrýstingurinn að fara upp og Björgvin byrjaði að stynja. Blóðgjöf var hætt strax og honum var gefið vatnslosandi í æð til að létta á önduninni.

Ákveðið var að gefa honum ekki meira blóð í dag og sjá hvað þessir 45 ml gera fyrir hann, sjá til næstu daga, gefa honum kannski aðra 50 ml á morgun og hinn ef læknunum finnst þess þörf. Það er greinilega fín lína hvað má gefa honum út af viðkvæmni hans í lungunum, hárfín lína.

Um kvöldmatarleitið þá birti aðeins yfir drengnum og hann varð glaðari og labbaði smotterí með mér um ganginn að herberginu okkar og til baka. Það var góðs viti, kannski að þetta smotterí af blóði geti gert kraftaverk? hver veit, sjáum til á morgun.

Við fengum góða gesti í dag, Maja vinkona mín kom til okkar í hádeginu og svo komu Óli bróðir og Emilía.

Nína vinkona mín á afmæli eftir klukkutíma, ætla að vera fyrst til að óska henni til hamingju með daginn! Afmælisknús á þig hlaupadrottning! :-*

Ásdís og Björgvin Arnar

Saturday, October 27, 2012

Þá birtir aðeins til ...

Staðan á lungunum hans Björgvins var ekki góð í dag, hann mettaði mjög illa, þurfti meira súrefni þrátt fyrir hærri vatnslosandi skammta. Eitthvað varð að gera í þessu öllu saman, stefnan var ekki góð og fannst mér eins og við værum bara á leiðinni á gjörgæsluna í dag. Björgvin var líka farinn að sýna skrítin einkenni, detta aðeins út eins og hann á til að gera þegar álagið á líkama og sál er orðið of mikið.

Lagt var upp með að setja legg í hann og taka blóðprufur til að athuga með blóðgildi hans sem hefur verið of lágt í langan tíma. Einnig vildu læknarnir gefa honum blóð ef það blóðgildið reynist of lágt til að hjálpa honum við þessa vökvasöfnun sem er að hrjá hann.

Gjörgæslufólk var fengið til að setja legginn í hann og taka blóðið. Niðurstaðan úr prufunum var að blóðgildið hans var orðið betra en það var fyrir 10 dögum síðan, var 95 en var komið í 105, sem segir okkur það að hann er að framleiða blóð sjálfur með efnunum úr fæðunni sem hann fær í gegnum magasonduna. Það er mikill léttir að heyra það að þetta allt saman er að verða honum eitthvað til góðs. Því var blóðgjöfinni frestað og staðan tekin aftur varðandi hana á mánudaginn. Það er ekki ráðlegt að gefa blóð manneskju sem er að framleiða það að sjálfsdáðum, þá hættir sú framleiðsla í bili, best er að hafa þetta sem eðlilegast.

Björgvin fékk vatnslosandi lyf í æð og sýnir strax góð viðbrögð við því, pissar mikið og er strax að stynja minna. Einnig þarf hann ekki eins mikið súrefni til að halda mettuninni góðri. Þannig að þetta er allt á betri leið.

Vandamálið hjá okkur er að skipta yfir af vatnslosandi lyfjum í æð í töfluform. Að fá svona lyf í æð er miklu áhrifameira, virkar fljótar og sterkar. Þessi skipti eru vandmeðfarin og nú þarf að hugsa upp gott plan þar sem við erum búin að lenda tvisvar í því að þurfa að fara til baka. Nú þarf líka að hugsa um að Björgvin er að fá fullt af fæðu í magann og þá er kannski upptaka lyfjanna úr meltingarveginum öðruvísi en áður þar sem hann var alltaf með tóman maga.

Á morgun þurfum við að fá nýtt plan frá læknunum. Eins gott að það verði gott svo að við getum farið heim, Björgvin spyr á hverjum degi hvenær við ætlum eiginlega að fara heim í Svölutjörn 5.

Þetta var stressandi dagur, mamman var mjög áhyggjufull. Biðjum um betri daga framundan.

Ásdís og Björgvin Arnar

Thursday, October 25, 2012

Afturför - Aftur komin á spítalann

Við erum komin aftur á spítalann eftir að mettunin hjá Björgvini versnaði mikið í dag. Hann er að fá svo mikla fæðu í sonduna sem er 75% vökvi, sem hann er greinilega ekki að höndla nógu vel. Það verður að finna út úr þessu.

Hann fékk auka vatnslosandi skammt þegar við komum og púst og varð fljótlega betri í mettuninni en ekki alveg nógu góður, hann stynur líka slatta mikið þegar hann andar. Planið er að fara í lungnamynd í fyrramálið til að útiloka sýkingu og svo hittum við vonandi Gylfa lækni og gerum eitthvað plan.

Nú erum við á stofu 29 sem við vorum á í 5 vikur í fyrra, já það kom smá skrítin tilfinning yfir mig en við ætlum nú að græja þetta vandamál á styttri tíma en það, ójá :)

Við mæðginin höfum það bara kósý hér saman.

Kveðja af Barnaspítalanum,
Ásdís og Björgvin Arnar


Ógleði í gleðinni

Við fengum dagsleyfi á þriðjudaginn og komum kl 20 um aftur á spítalann. Björgvin var alveg sáttur við þetta eftir mikla gleði að komast heim í smá stund, það sem hann naut sín.

Þegar við komum á spítalann þá sagði hann "mamma? þetta var stór dagur í dag að fara heim í Svölutjörn" Já hann getur bara ekki verið meiri dúlla :)

En svo versnaði í því kl 22 þegar mamman fékk líka þessa fínu gubbupest og varð að kalla pabbann til á spítalann á meðan ég hentist heim og lá í þessu í einn sólarhring.

Á meðan fengu þeir feðgar leyfi til að fara heim fram á föstudag og þá þarf Björgvin að koma í lokaskoðun fyrir útskrift. Dálítið stressandi að hafa ekki mónitor til að sýna mettunina þar sem hún hefur ekki verið nógu góð á nóttunni en það verður bara að taka smá stikkprufur yfir nóttina, það ætti að duga. En það eru alltaf viðbrigði að fara af spítalanum út af svona eftirliti, eins gott að allt sé í lagi!

Nú ætla ég að bruna í bæinn að ná í strákinn minn og koma honum heim til sín, get ekki beðið! :)

Knús í hús
Ásdís og Björgvin Arnar

Tuesday, October 23, 2012

Heim í leyfi

Við erum komin heim í Svölutjörn í leyfi, förum svo aftur á spítalann í kvöld og sofum í nótt. Ástæðan fyrir því er að mettunin í nótt var ekki alveg eins og hún þarf að vera til að hleypa okkur heim en samt sem áður var lungnamyndin góð og vonumst við til að útskrift verði í fyrramálið.

Það var tekin lungnamynd í morgun sem var mjög góð.

Björgvin var alsæll að komast heim og ætlum við að njóta dagsins :)

kveðja úr Svölutjörn
Ásdís og Björgvin Arnar

Monday, October 22, 2012

Tannmissir seinasta daginn á spítalanum

Við fengum ekki að fara heim í dag vegna þess að Björgvin þurfti smá súrefni af og til í nótt, en samt sem áður var það ekkert að ráði. Hann hefur bætt aðeins vökva á sig og var ákveðið að gefa honum aðeins meira vatnslosandi þar sem hann er ekkert að hreyfa sig um að ráði, en ef hann myndi gera það þá færi vökvinn af honum með hreyfingunni.

















Þrátt fyrir vonbrigði með að komast ekki heim í dag þá áttum við góðan dag á leikstofunni þar sem Björgvin eldaði mat, pústlaði, málaði og teiknaði.


















Seinni partinn í dag þá missti Björgvin fjórðu tönnina. Það var nú ekki næstum eins mikil dramatík í kringum það og seinast, sem betur fer, alsæll var hann með árangurinn og að vera að verða svona stór strákur. Það verður svo gaman að sjá hvort tannálfurinn rati á spítalann :)

Tönnslukveðja
Ásdís og Björgvin Arnar

Saturday, October 20, 2012

Laugardagur til lukku á vel við núna

Mikið var þetta góður dagur í dag. Björgvin var svo hress og kátur, var að grínast og talaði fullt, líkur sér. Það besta var að læknarnir ákáðu að gefa honum vatnslosandi lyfið sem hann var ennþá að fá í æð í töfluformi þannig að það var hægt að taka seinasta legginn úr honum. Þvílíkur léttir fyrir hann, getur nú notað báðar hendur.

Við reyndum að láta Björgvin labba smá, hefur ekkert labbað síðan fyrir aðgerð. Það var ekki auðvelt til að byrja með, hann var eins og litli bambi, skalf á fótunum og vildi bara setjast strax niður en við náðum að herja  út tólf skref  hjá honum. Fórum svo á túntinn í babú bílnum út um allan spítala og reyndum svo aftur að láta hann labba og þá gekk honum miklu betur, fengum alveg 200 skref - Harkan i þessum gaur sem ég á! :)

Björgvin var án súrefnis frá 14 - 19 í dag. Þvílíkur áfangi og hann var svo glaður að þurfa ekki að hafa súrefnisslönguna framan í sér.


















Hann var svo glaður í dag, hvað er betra en þegar barnið manns er hamingjusamt? Ekkert! Hann var líka búinn að vera svo óhamingjusamur seinustu daga og líða svo illa. Þetta er stórt skref í batanum.

Ester vinkona kom í heimsókn og gaf honum þessa fínu derhúfu, já það má sko segja að hún hafi slegið í gegn hjá íþróttaálfinum mínum :)


















Þegar líða fór á kvöldið og Björgvin varð þreyttur og þurfti þá á súrefni að halda og líklega mun nóttin verða á sömu nótunum. En vonandi fáum við lengri tíma á morgun súrefnislausan til að nálgast það markmið að komast heim.

Hamingjuknús frá okkur Björgvini Arnari

Friday, October 19, 2012

Fleiri skref fram á við

Mikill munur er búinn að vera á milli daga hjá Björgvini Arnari. Hann var miklu hressari í dag þó svo að enn sé hann mjög slappur.  Hann fór á rúntinni í babú bílnum, sat í smá stund frammi og fékk sér brauðbita og horfði á Dýrin í Hálsaskógi og svo kíkti hann í smá stund til Gróu og Sibbu á leikstofuna. En eftir þetta ferðalag var hann mjög uppgefin og lagði sig í rúma tvo tíma.

Mikilvægt er að reyna að örva hann, láta hann setjast upp og hreyfa sig. Hann er mjög máttfarinn og hefur lítinn líkamlegan kraft. Þegar hann var látinn labba smá þá gat hann ekki meira eftir nokkur skref. En vonandi verða þau fleiri á morgun!


















Súrefnismettunin er góð og er alveg ótrúlegt hvað hann þarf lítinn leka af súrefni til að haldast í fullri mettun en hann fellur ekki jafn hratt niður þegar við slökkvum á súrefnisflæðinu. Þetta er allt að koma hjá honum. Til að þjálfa lungun ásamt hreyfingunni þá látum við hann blása í svona partýflautu sem fer svona út þegar blásið er vel í og er hann búinn að standa sig svakalega vel, mikill munur á krafti og fjölda miðað við gærdaginn.

















Við fengum góða gesti í heimsókn í dag, Allý og Arnar kíktu á strákinn og svo komu amma og afi brunandi til okkar. Björgvin var alsæll með þessa gesti og var hinn hressasti (svona miðað við seinustu daga, talar nú ekki mikið en þetta er að koma).

















Björgvin er farinn að brosa og grínast svolítið, verða sjálfum sér líkur. Við höfum fulla trú á að morgundagurinn verði enn betri en í dag. Við ætlum okkur heim á mánudaginn svo að það er eins gott að vinna að því.

Takk yndislega fyrir öll kommentin og hlýjar kveðjur og hugsanir.

Ásdís og Björgvin Arnar

Thursday, October 18, 2012

Skref fram á við

Nóttin var mjög erfið, Björgvin átti erfitt með andardrátt í gærkvöldi og fram á nótt, þá var honum gefið púst sem hjálpaði til en hann var samt stynjandi og þurfti mikið súrefni til að halda uppi lágmarks mettun. Ekki var því mikið sofið í nott.

Þegar læknarnir komu í morgun þá var sett upp áætlun dagsins sem hljóðaði upp á lungnamynd, meira vatnslosandi, blóðprufur úr leggnum í hálsinum, kannski taka þennan legg úr þar sem hann háði honum svo mikið, setja sondumat í magasonduna, sjúkraþjálfun og reyna að virkja hann til hreyfingar.

Lungnamyndin sýndi mikinn vökva og var skammturinn af vatnslosandi lyfinu tvöfaldaður. Sjúkraþjálfarinn Helga kom og hjálpaði honum að blása í svona partýflautu og hafði það góð áhrif á hann. Við fengum að velja um að taka þennan legg úr hálsinum og fá þá nýjan legg á annan stað og við völdum það. Hann fékk nýjan legg í vinstri handlegg og var þteta allt annað líf að losna við þetta úr hálsinum, nú getur hann hreyft sig aðeins meira og legið á báðum hliðum þegar hann sefur. Fæðan í magasonduna var sett af stað, mjög hægt, og fór hún vel í hann.


















Björgvin fékk að fara á rúntinn í þessari flottu kerru og var hann alsæll að fara smá í lyfturnar og rölta um, lyftist aðeins á honum brúnin. Aggi og Svava og krakkarnir komu í heimsókn, Björgvini fannst nú ekki leiðinlegt að sjá frænda sinn.


















Þegar hann var sofnaður í kvöld þá var hann að metta frekar vel, var á bara með tæplega hálfan lítra af súrefni, vonandi fer hann að geta veri án þess, það er viðmiðið að geta verið án súrefnis til að komast heim. Getum náttúrulega ekki beðið eftir því! :)

Biðjum fyrir fleiri skrefum fram á við á morgun.

Ásdís og Björgvin Arnar <3 p="p">

Wednesday, October 17, 2012

Kominn af gjörgæslu

Dagurinn í dag er búinn að vera svolítið strembinn. Það gekk vel að taka hetjuna úr öndunarvélinni en næstu tveir tímarnir voru ekki góðir.

Um kl 14 þá fórum við yfir á Barnaspítalann og var Björgvin alveg útkeyrður og er búinn að sofa mikið. Þess á milli er hann búinn að vera frekar óhamingjusamur og er hann eiginlega í fráhvörfum þar sem öll lyf voru tekin af honum og hann er með hausverk, aumur í hálsinum eftir öndunarvélina og aumur í maganum vegna hnappsins. Það er mikið á hetjuna lagt!

Hann fékk mikinn vökva í sig með því að vera í öndunarvél í svona langan tíma, bæði í lungun og svo utan á líkamann, mjög þrútinn og voru augun svo sokkin að hann gat varla opnað þau. En augun eru orðin aðeins skárri núna þar sem hann er búinn að fá auka vatnslosandi lyf.


















Hann er með legg í hálsinum sem pirrar hann mikið, ekki er hægt að losna við hann fyrr en á morgun þar sem hann er að fá morfín, vatnslosandi og sýklalyf í hann.

Amma og afi komu að heimsækja prinsinn sinn og var hann glaður að vita af þeim þó svo að hann sagði nú lítið og rétt opnaði annað augað.

















Kvöldið er búið að vera honum erfitt, mikil vanlíðan og einhvern veginn úrvinda en ekki náð að slaka á. Hann fékk verkjalyf og morfín til að ná sér niður og sefur núna værum svefni. Vonandi mun hann geta hvílt sig vel í nótt og náð upp kröftum fyrir morgundaginn. Hann er eitthvað svo máttfarinn t.d. er hóstinn hjá honum svo kraftlaus að hann nær varla að hósta.

Takk fyrir öll skilaboðin og yndislegt að vita hve margir hugsa til okkar!

Ásdís og Björgvin Arnar

Kominn úr öndunarvél!

Jæja þá er hetjan mín komin úr öndunarvélinni. Þetta er búið að taka smá á hjá honum, hefur þurft á miklu súrefni að halda og fá innúða til að hjálpa við öndun. Fyrstu tveir tímarnir á eftir hafa verið smá stressandi þar sem honum leið svo illa vegna þess að öll lyf voru tekin af honum og um leið erfitt að anda og mikill þorsti.

Honum var gefið morfín ef hann var að finna fyrir sársauka þar sem púlsinn var frekar hár og svo vatnslosandi lyf þar sem hann er mjög þrútinn af vökva, getur varla opnað augun.






















Hann var með hita í gær en hann er á undanhaldi og líður honum núna mun betur og gat loksins slakað á og hvílt sig. Hér er hann sofandi með súrefnisgrímuna.

Það er ekki víst hvort hann fari af gjörgæslunni í dag, kannski vilja læknarnir halda honum hér þangað til á morgun, kemur betur í ljós hvernig dagurinn mun spilast.

Í morgun þá heyrði ég auglýsingu um tvöfaldan pott í Vikingalottó í kvöld, hver þarf lottovinning þegar maður á svona mikla hetju! :-D Það er mín gleði og fylling í lífinu.

Þakklætiskveðjur að allt er að ganga vel.
Ásdís og Björgvin Arnar

Tuesday, October 16, 2012

Aðgerð lokið - Gjörgæslan

Aðgerðin tók tæpa 3 klukkutíma og gekk vel. Mestur tíminn fór í undirbúning þ.e. að setja í hann 3 leggi og koma honum almennilega fyrir og láta hann í öndunarvél.

Aðgerðin sjálf tókst vel og svæfingin líka. Honum verður haldið sofandi í öndunarvél þangað til á morgun og er mikið slím í lungunum, það fer ekki vel í hann að vera í öndunarvél. Hann fær púst og bólgueyðandi stera til að hjálpa honum og svo er verið að soga slím upp úr honum öðru hverju. Mettunin er góð og hann fær sýklalyf til öryggis ef hann fengi sýkingu í lungun.

Það eru tvær hjúkrunarkonur aðeins með hann og veitir ekkert af, mikið umstang og pælingar á stillingum á öndunarvél og lyfjum sem þarf að gefa honum.


















Nú bíðum við bara róleg og vonumst til að honum batni í lungunum. Hann mun vera tekinn úr öndunarvélinni í fyrramálið á skurðstofunni.

Bið góðan guð að gefa okkur að þetta muni allt ganga vel með hjartaknúsarann.

Batakveðjur,
Ásdís og Björgvin Arnar á gjörgæslun Landspítalans.

Á leið í aðgerð

Þá er hjartað mitt farið í aðgerðina, hann var svo þyrstur, enda fastandi, og hræddur. Það er sko eins gott að þessir sérfræðingar hugsi vel um hann.

Nú er bara að biðja fyrir því að þetta fari allt vel, það var erfitt að skilja við hann, en hann sofnaði í fanginu mínu <3 p="p">
















Ásdís Arna og Björgvin Arnar

Monday, October 15, 2012

Aðgerð á morgun

Þá er loksins komið að þessu í annað skiptið, en núna er okkur sagt að það sé öruggt að aðgerðin verði á morgun kl 8.

Seinustu dagar hafa verið erfiðir og á sérstaklega fyrir Björgvin. Hann hefur þurft að fá blóðþynningarsprautu tvisvar á dag, á tólf tíma fresti, og líka vaxtahormónasprautu einu sinni á dag. Álagið hefur verið mikið og er ekki skemmtilegt að sjá hann með sprautusár út um allt og hvað þá að sjá hann ganga í gegnum þetta. Stundum þá vildi maður geta tekið eitthvað af þessum sársauka á sig í staðinn.

Þegar við komum af spítalanum á fimmtudaginn þá var Björgvin með legg í hægri hendinni og gat lítið leikið sér en hann lét það nú ekki stoppa sig í að teikna listaverk, gerði sér lítið fyrir og teiknaði með vinstri og svona líka vel!

























Svo var leggurinn tekinn á föstudaginn og þá leið honum miklu betur, gat gert allt sem honum langaði til.

Aggi frændi kom í heimsókn og knúsaði frænda sinn svolítið, hann var ekki leiður að fá Huldu Maríu frænku sína í heimsókn. Óli frændi kom líka ásamt Snjólaugu og börnum. Amma og afi komu til okkar mörgum sinnum og fór afi með strákinn sinn á rúntinn og róló.

























Krossum fingur og vonum að allt gangi vel á morgun! Vona svo innilega að allt þetta erfiða seinustu daga og þessi aðgerð komi til þess að Björgvini líði betur í framhaldinu.

En eftir að hann fékk blóðgjöfina um daginn þá er ég ekki frá því að hann sé hressari og líti betur út. Þetta hefur verið gott orkuskot fyrir hann.

Baráttukveðja af Barnaspítalanum,
Ásdís og Björgvin Arnar

Thursday, October 11, 2012

Aðgerð frestað og gjöf sem bjargaði deginum.

Í blóðprufunum á mánudaginn kom í ljós að Björgvin var rosalega blóðlítill og með lágt járn, enda búinn að vera mjög slappur undanfarið þannig að hann varla stendur í lappirnar. Hann fékk því blóð í gær og tók það allan daginn að fá blóðið á deildina og svo loks að dæla því í hann. Ég er ekki frá því að hann sé smá hressari eftir þetta.

Aðgerðin sem átti að vera í morgun var frestað vegna þess að gjörgæslan er full. Við mættum kl 7:30 og var Björgvin fastandi, kl 11 fáum við að vita af þessu og þá var Björgvin búinn að vera að mjög þyrstur og svangur í langan tíma.

Þetta var ótrúlega erfitt og svekkjandi þar sem búið var að leggja áherslu á að þetta væri aðgerð sem má ekki fresta né að eitthvað komi upp á. Undirbúningsferlið hjá Björgvini er miklu flóknara en hjá öðrum vegna blóðþynningar sem má ekki vera til staðar í aðgerðinni sjálfri en annað lyf gefið í staðinn til að verja hjartalokuna. Þetta ferli er eitthvað sem ekki er lagt í nema að allt sé 100% skipulagt. Þvílíkt klúður!

Eftir þessar leiðinlegu fréttir þá sátum við á kaffistofunni til að stöffa Björgvin af ýmsu góðgæti og þá kom deildarstjóri á Barnaspítalanum með gjöf handa honum. Það voru sem sagt hjón sem komu með 4 spjaldtölvur til að gefa börnum sem þurfa á því að halda. Björgvin varð fyrir valinu og þvílík gleði í öllu sem búið er að ganga á seinustu daga hjá honum. Þetta bréf fylgdi gjöfinni:














Já þetta vakti mikla gleði og hamingju hjá litlum dreng, þakka ykkur kærlega fyrir elsku velgjörðarfólk!

Aðgerðin verður á næsta þriðjudag, until then :)

Þakklætiskveðja úr Svölutjörn
Ásdís og Björgvin Arnar








Sunday, October 7, 2012

Undirbúnings- og aðgerðarvika

Á morgun mánudag þá förum við Björgvin Arnar í undirbúning á Barnaspítalann. Þá eigum við að hitta hjúkrunarfræðing sem fylgir börnum eftir sem fá svona magasondu og fáum fræðslu hjá henni, einnig hittum við skurðlækninn og svæfingarlækninn.

Gylfi mun taka Björgvin af blóðþynningunni fyrir aðgerðina og þurfum við að gefa honum annað lyf sem er sprautað í lærið á hverjum degi til að vernda hjartalokuna á meðan engin blóðþynning er verkandi.

Á fimmtudaginn er svo aðferðin sjálf og eigum við að mæta 7:30 um morguninn og á aðgerðin sjálf ekki að taka langan tíma. Nú vonum við að svæfingin gangi vel og engar uppákomur verða en að öllu óbreyttu þá verðum við á spítalanum yfir nótt.

Björgvin fékk flensu í vikunni, mikinn hósta og hita, og fékk strax sýklalyf til að fyrirbyggja lungnasýkingu fyrir aðgerðina. Hann er betri í dag, hitalaus en hóstar enn og borðar lítið, eins og alltaf þegar hann fær kvef, þá minnkar matarlystin úr nærri engu í ekki neitt.

Vonandi mun þessi vika ganga vel og ég get farið að fita drenginn minn :) Krossum fingur!

Vonarkveðja úr Svölutjörn
Ásdís og Björgvin Arnar

Sunday, September 30, 2012

Tannálfurinn kom í heimsókn

Nú kom að því að drengurinn missti tönn af náttúrulegum hætti, þ.e. ekki af slysförum. Björgvin missti báðar efri framtennur 1. febrúar á þessu ári þegar hann datt á leikskólanum. En nú losnaði ein neðri framtönn af sjálfsdáðum og var mikil dramatík í kringum það. Björgvini fannst ekki þægilegt að hafa hana svona laflausa og var hræddur um að það yrði sárt þegar hún dytti. Svo datt hún daginn eftir og hann var alsæll að vera orðinn svona stór!


















Annars er hann búinn að vera nokkuð hress og kátur, gengur vel í leikskólanum. En hann borðar ekki vel og þyngist ekkert og er það í rauninni það eina sem gengur ekki vel, þrátt fyrir að vera á vaxtarhormónum. Næsta skref í ferlinu er að hann fái magasondu og verður sú aðgerð gerð 11. okt næstkomandi. Það fylgir þessu mikill kvíði þar sem erfitt er að svæfa hann og oft koma sýkingar í kjölfarið í lungun, þó svo að aðgerðin sjálf sé auðveld. En maður ber þá von í brjósti að um leið og hann fær næga næringu þá muni eitthvað gerast í fjölgun sentimetra :)

Björgvin Arnar er mikill listamaður og teiknar á töfluna sína á hverjum degi, unir sér svo vel við það og svo sýnir hann okkur listaverkin sín. Þetta teiknaði hann um daginn, hvernig honum datt í hug að gera tölustafina svona öðruvísi er flott og hugmyndaríkt.

























Kær kveðja úr Svölutjörn
Ásdís og Björgvin Arnar

Tuesday, August 7, 2012

Sumarfríið á enda

Nú er sumarfríið okkar á enda og er ekki hægt að segja annað en við höfum notið þess mikið í þessu yndislega veðri sem hefur verið að leika við okkur.

Við fórum í sumarbústað með ömmu og afa, Slakka, margsinnis í sund, strætó, útilegu, heimsóknir. Best var að njóta góða veðursins á pallinum okkar, leika úti og fara í pottinn.

























Björgvin er ekkert búinn að þyngjast og hafa seinustu mánuðir verið skrítnir. Búið er að reyna allt til að þyngja drenginn en það hefur ekki tekist. Hann fékk kaloríuduft sem hann gubbaði þvílíkt af, hann fór á lystaraukandi lyf sem hann gubbaði alltaf af þegar hann var sofnaður á kvöldin.

Þessi uppköst hættu alveg þegar hann hætti á þessu lyfi á dufti en samt sem áður stendur hann bara í stað á vigtinni. Við eigum tíma hjá meltingarlækni um miðjan ágúst og förum yfir stöðuna með honum. Þetta átti að vera besti tíminn til að vera mikið úti, hreyfa sig og borða en það er ekki búin að hafa nein áhrif, lystarleysið er gríðarlegt hjá prinsinum.

















Björgvin er samt hress og kátur og ætlar að verða tannlæknir, læknir og búðarmaður þegar hann verður stór. Reyndar bætti hann svo við að hann ætlar að verða trúður með gítar líka :) Verður nóg að gera hjá honum í framtíðinni.

Sumarkveðja úr Svölutjörn
Ásdís og Björgvin Arnar

Friday, April 20, 2012

Undirhakan vekur mikla gleði :)

Jæja nú er mars liðinn og þá þarf að birta niðurstöður frá fitumars. Björgvin fékk kolvetnisduft í vatnið, fitumixtúru 4 msk á dag, build up blandað í nýmjólk, rjóma og ís, lýsi, vítamín og svo mikið smjör og allt sem er fitandi.

Við fórum líka inn á leikskólann og þau tóku þátt í þessu átaki okkar með því að gefa honum nýmjólk í staðinn fyrir vatn í hádeginu, eina msk af fitu eftir hádegismatinn og svo mikið smjör og álegg á það sem hann borðar í önnur mál.

Björgvin Arnar þyngdist um 600 gr. í mars þrátt fyrir gubbupest og kvef. Það er ótrúlega góður árangur miðað við að hann hefur verið í sömu þyngd í 2-3 ár. Nú þarf að halda þessu áfram til að hann hafi orku til að stækka, krossa fingur!

















Núna í apríl þá rifjuðum við upp áhyggjurnar og stressið í smá stund. Björgvin fékk uppköst og hausverk eftir að hann byrjaði að fá vaxtarhórmón. Við það fór hann í CT myndatöku á höfði sem leiddi í ljós að þetta voru ekki aukaverkanir í höfði af lyfinu heldur fundu læknarnir eitthvað annað í höfðinu hans. Björgvin fór þá næst í MRI myndatöku á höfðinu sem er mun nákvæmari og kom þá í ljós að ekkert hættulegt var í höfðinu hans, guði sé lof! Þvílíkur ólýsanlegur léttir.

En hann þurfti að fara í öndunarvél í svæfingunni og í kjölfarið fékk hann lungnabólgu en er allur að koma til núna og er hress og kátur eins og hann er vanur að vera.

Í öllu þessu þá hugsaði maður til þess tíma sem við vorum mikið á spítalanum og hve marga góða vini ég á sem komu til okkar, með mat eða til að styðja okkur andlega og félagslega. Því mun ég aldrei gleyma :-*

Mikil tilhlökkun er fyrir sumrinu hér í Svölutjörninni og munum við nota þann tíma til að efla Björgvin líkamlega og fita hann eins og við eigum lífið að leysa.

Kaloríukveðjur,
Ásdís og Björgvin Arnar

Wednesday, March 7, 2012

Fitumars

Björgvin er orðinn 5 ára pjakkur en er smár og jafn þungur og 21. mánaða barn. Það hefur verið þannig að sama hvað við gerum þá þyngist hann ekki og okkur hefur verið sagt að ef hann þyngist ekki þá stækkar hann ekki. Þannig að núna er markmiðið að þyngja hann í mars með aðstoð næringarfræðings.

Björgvin var 11.5 kg í byrjun mánaðar en er orðinn 11.8 kg. núna. Ég vigta hann alltaf á mánudagsmorgnum og skrifa það hjá mér. Ég nota fitumixtúru sem hann fær 4 matskeiðar á dag af og svo er það build up sem ég blanda með nýmjólk, rjóma og ís. Einnig á að nota mikið smjör og olíu.


















Ekki hefur þetta dugað til samt sem áður, hingað til. Nú erum við komin með hvítt duft sem er fullt af kolvetni til að blanda út í vatn og fleira og Björgvin hefur fengið lyf sem er lystaraukandi.

Já það er ekki mikil þolinmæði eftir, hann verður að fara að stækka og dafna. Ég er með þetta á heilanum og hugsa ekki um annað en að reyna að koma einhverju ofan í hann en lystarleysið er svakalegt.  Það er mín heitasta ósk í þessu lífi. Krossum fingur að þetta lyf virki og hann muni þyngjast og stækka.

Björgvin hefur mikinn áhuga á að læra að skrifa og þá sérstaklega tölustafina, hérna sjáið þið fallegasta B í heimi :)

FITUMARS! Koma svo! :)

Fljótandifitukveðja úr Svölutjörn,
Ásdís og Björgvin Arnar

Sunday, January 29, 2012

Til hamingju með afmælið Björgvin Arnar

Við héldum upp á 5 ára afmælið hans Björgvins í dag þó svo að hann eigi nú ekki afmæli fyrr en 3. febrúar sem er á föstudaginn næsta. Þemað var náttúrulega Latibær og íþróttaálfurinn, það kom ekkert annað til greina hjá litla íþróttaálfinum í Svölutjörn 5 :)

















Við fengum marga góða gesti, ættingja og vini, og var mikið fjör hjá Björgvini. Hann fékk mikið af flottu dóti og var alveg óður að fá að opna pakka, sem er í fyrsta sinn, yfirleitt hef ég þurft að dreifa pökkunum á dagana til að fá hann til að opna þá alla, en nú var raunin önnur :)






















Íþróttaálfabúningurinn frá ömmu og afa sló svo sannarlega í gegn og vildi hann helst fara að sofa í honum. Spurði hvort hann ætti fara í honum á leikskólanum, nú sjáið þið ekki bara myndir af Björgvini í íþróttaálfagallanum heldur í búningnum líka, út árið! Þetta var ekki á það bætandi hehe.






















Hér sjáið þið að ég náði að setja Björgvin í sparifötin í klukkutíma í dag áður en hann fór aftur í íþróttaálfabúninginn.

Á þessum tíma er ég þakklát fyrir að geta haldið upp afmælið hér heima, í fyrra héldum við upp á afmælið á barnaspítalanum, en það var samt eftirminnilegt afmæli með íþróttaálfinum. Björgvin Arnar er hress og kátur og vonumst við að það haldi áfram þannig út þetta erfiða flensutímabil, krossum fingur! :)

Þakka ykkur kærlega fyrir komuna í dag sem komuð og fyrir strákinn minn.

Afmæliskveðja úr Svölutjörn
Ásdís og Björgvin Arnar