Saturday, December 24, 2011

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Á morgun ganga jólin í garð og við Björgvin og Andrea verðum hjá Elvari bróður og Huldu á Aðfangadag. Það er mikill spenningur og síðan að Björgvin og afi skreyttu tréð og pakkar settir undir þá er mikið búið að spá hvenær megi opna þessa blessuðu pakka.

















Björgvin er búinn að vera mjög kvefaður og æla miklu slími, vonandi fer þetta að lagast. Hann fékk flensusprautu fyrir viku síðan og er búinn að vera hálfslappur án þess samt að fá hita. Vonandi fer hann að hrista þetta af sér.



Þetta er búið að vera viðburðaríkt ár hjá okkur hér í Svölutjörninni. Mikil veikindi hófust strax í janúar þar sem Björgvin lagðist inn þann 17. janúar með lungnabólgu og vorum við þar í 3 vikur en fengum svo að fara heim með súrefnisvél.

Við héldum því upp á 4. ára afmælið hans á Barnaspítalanum sem var mjög eftirminnilegt þar sem íþróttaálfurinn mætti og kætti Björgvin og fleiri börn í leiðinni. Björgvin hefur lengi lifað á þessu og fékk svo að hitta íþróttaálfinn aftur seinustu helgi í afmæli hjá vinkonu sinni og íþróttaálfurinn þekkti hann aftur og var með Björgvin mikið í fanginu og spjallaði heilmikið við hann.

Svo var Björgvin alveg með súrefnið hér heima þangað til við vorum send til Boston 1. maí til að rannsaka hvað væri í gangi og sú ferð endaði að vera mánuður og 5 dagar og var gerð aðgerð á Björgvini þar sem 40% af vinstra lunganu var fjarlægt. Hann hefur verið miklu betri síðan og ekki farið inn á spítala síðan þá (7, 9, 13). Þetta voru vægast sagt mjög erfiðir tímar, ekki var mikið svigrúm til að gera neitt annað en að berjast fyrir drengnum.

Nú er það bara þolinmæðin sem dugir, að gefa honum að borða til að reyna að fita hann og að vonast til að hann stækki eitthvað. Einnig er mikið mál að næstu mánuðir gangi vel fyrir sig flensulega séð. Seinustu tvö ár hafa verið þannig að í janúar hefur hann verðið lagður inn á spítala. Vonum það besta núna!

















Við þökkum vinum og ættingjum þann stuðning og velvild í okkar garð á árinu sem er að líða. Við höfum nú fundið fyrir því að það er ómetanlegt að eiga góða að á erfiðum stundum jafnt sem góðum. Við erum sæl og glöð og tökum á móti jólunum opnum örmum og ætlum að eyða næstu dögum í faðmi fjölskyldunnar, ekkert er betra en að vera öll saman, inn með gleði og frið.

Gleðilega jólahátíð,
Ásdís og Björgvin Arnar

Saturday, December 3, 2011

Ég elska jólin mamma.

Nú eru 6 mánuðir liðnir frá heimkomu. Tíminn er fljótur að líða þegar það er gaman og allt gengur vel.

Seinustu mánuðir hafa gengið svakalega vel. Björgvin hefur fengið flensu í haust, kvef, hita og gubbupest og í öll þessi skipti höfum við sloppið við spítalaferð. Það er eiginlega kraftaverk að hann hafi fengið kvef án hita og lungnabólgu.

Við finnum fyrir miklum mun á honum þroskalega séð, talmálið er bæði skýrara og orðaforðinn er orðinn mjög góður. Hann segir orðið alveg ótrúlegustu hluti og er stundum eins og fullorðinn maður.

Við þurftum reyndar að fara á spítalann í vikunni vegna þess að hann fékk miklar blóðnasir sem stóðu yfir í tvo og hálfan tíma. Okkur var gefið krem sem græðir og brennir smá fyrir æðar og hjálpaði það. En Björgvin var að tala við hjúkrunarkonuna og svo snéri hann sér að mömmu sinni og sagði "Mamma, þessi kona er skrítin!" Já hann er farinn að koma manni í smá bobba litli grallarinn minn :)

Við fórum í búð í dag þar sem var leikhorn með pústluspili með formunum. Svo segir Björgvin "Mamma, er þetta rectangle?"  og sýnir mér rétthyrning. Alveg ótrúlegur prófessor.


Latibær og íþróttaálfurinn er ennþá í miklu uppáhaldi og er hann stöðugt að leika sér með hann. Björgvin er á leikskólanum alla daga til kl 15:30 á daginn og er ekkert mjög þreyttur eftir daginn, þrekið og þolið er orðið miklu betra og hann er svo glaður á leikskólanum. 

Björgvin er einnig í boltaskólanum einu sinni í viku og er það verið að gera allskonar þrautir og læra að leika sér með bolta. Björgvin er mjög duglegur og er hann búinn að ná árangri í þrautunum, sumt gerði hann ekki fyrst en er farinn að auka við sig í styrk og þori.

















Það er ekki búið að mæla hæðina á honum í þónokkurn tíma en hann hafði stækkað um 2 cm í sumar og vonandi fer hann að bæta nokkrum við sem fyrst. Hann er ekki búinn að þyngjast neitt mikið seinustu 3 mánuði en borðað samt betur og er farinn að borða sjálfur á leikskólanum, svo duglegur strákur.

Björgvin var alsæll að sjá snjóinn en þorði samt ekki að fara á þotu, er með svo lítið hjarta. En spenningurinn fyrir jólunum er mikill og verið að undirbúa börnin fyrir jólin á leikskólanum og segja þeim sögur af jólunum. Björgvin segir oft "Ég elska jólin, mamma".

Lífið er sko breytt hér í Svölutjörn, minni áhyggjur þó svo að þær verði alltaf einhverjar enda eðlilegt þegar maður á langveikt barn. En lífið er orðið miklu meira nær eðlilegu lífi og er tilfinningin ólýsanleg að geta farið í vinnuna og barnið manns er á leikskólanum, eitthvað sem fólk tekur sem sjálfsögðum hlut.

Jólaundirbúningskveðja,
Ásdís og Björgvin Arnar