Thursday, July 7, 2011

Einn og hálfur mánuður frá aðgerðinni

Tíminn líður hratt þegar það er gaman! :)

Björgvin er svo hress og kátur og vaknar á hverjum morgni og heimtar kjúkling í sósu, haha, hefði manni dreymt um það, ónei. Mikill munur er á honum á allan máta, hann er hefur meira þol og kraft, hann borðar og þyngist, hann talar skýrar og þroskast vel. Það er eiginlega allt sem er betra.

Björgvin fór á leikskólann í gær og fannst svo gaman að amman gat varla náð honum heim á hádegi. Þegar ég spurði hann í gærkvöldi hvort hann vildi fara aftur og þá sagði hann "Já auðvitað!" Þannig að hann fór aftur í morgun og var fram yfir hádegi, svakalegt stuð hjá honum.

Björgvin er farinn að vera svolítið óþekkur og segir oft "Ég ræð, ég segi nei", ég skil ekki hvaðan hann hefur þetta. Ég hringdi heim úr vinnunni í dag og þá tilkynnti hann mér að hann hefði verið óþekkur við ömmu sína og skammað hana.

Björgvin er mikið úti að leika sér í garðinum okkar, trampólínið er alveg svakalega spennandi og skemmtilegt og sér maður mun dag frá degi þegar hann hoppar, hann er orðinn svo styrkur í fótleggjunum sínum. Hann fór í gær alveg sjálfur upp í kastalann, sem er dálítið hár, og hafði ekkert fyrir því. Einnig er hann búinn að ná lit á handabökin sem hefur aldrei gerst áður.

Á morgun förum við í sumarfrí og er mikill léttir og tilhlökkun að fara í sumarfrí án þess að hafa miklar áhyggjur af drengnum sínum. Hann er yndislegur og lífið er svo breytt til hins betra. Nú ætlum við að njóta þess að vera saman og hafa það gott með fjölskyldu og vinum.

Kveðja úr Sunny-Kef
Ásdís og Björgvin Arnar