Hjartaþræðingin gekk vel í dag, þ.e. svæfingin gekk vel, ekki var erfitt að koma honum í öndunarvél og það gekk vel að framkvæma allar rannsóknir og mælingar sem þau vildu ná.
Nú erum við komin á gjörgæsluna, fengum smá flashback að koma hingað aftur, þekkjum mörg andlit og það fór um mann smá hrollur að hugsa um reynsluna sem maður öðlaðst hér á þessum stað. En í þessum aðstæðum þá vill maður hvergi annars staðar vera. Þvílíkt fagfólk, þetta er alveg ótrúlegt.
Björgvin er ennþá í öndunarvél þar sem hann það tekur alltaf á lungun að fara í svæfingu þá finnst þeim betra að bíða með að taka hann úr og leyfa honum að jafna sig aðeins og gera áætlun um að fasa hann úr vélinni. Hér á eftir kemur mynd af honum eftir aðgerð.
Svo var hann svo duglegur að hann fékk blöðru í verðlaun frá mömmu sinni, hann er sko harðjaxl þessi strákur sem ég á.
Niðurstöðurnar eru margvíslegar og skulum við byrja á því góða:
- Þrengingin í hálsinum var í góðu ástandi fannst þeim, tóku myndir og sýndu okkur.
- Þrýstingurinn hægra megin í hjartanu var ekki eins slæmur og haldið var, bara ágætur
- Lokan í hjartanu er í góðu standi, lekur ekki og er ekki að þrýsta á neitt
Það sem er ekki eins gott:
- þá er ein lungnaæðin sem kemur úr vinstra lunganu inn í vinstra hluta hjartans lokuð en samt hefur önnur lítil æð myndast sem lætur blóð fljóta yfir í aðra lungnaæð. Ekkert hægt að gera í þessu en skurðlæknirinn mun samt líta á þetta á morgun.
- Vinstri hluti hjartans nær ekki að slaka nógu vel á eftir að hann er búinn að pumpa og veldur hærri þrýstingi en ella. Einnig er vinstri hluti hjartans minni en hægri.
Það kom ekkert út úr þessu sem hægt er að segja að sé vandamálið við öllum hans kvillum en vísbendingar um sumt fengum við og svo verður gerð berkjuskoðun á morgun og sýni verða tekin úr lungunum hans, þá verður athugað hvort þar sem einhverjar bakteríur sem erfitt er að losna við og hvort hann sé að anda einhverju að sér sem hann drekkur sem veldur vandræðum. Einnig verður gott að fá að vita hvort vinstri lungnapípan sé með einhverri hindrun í eða hvort hún sé óeðlilega lítil. Þetta verður allt skoðað mjög vel sem betur fer.
Það munu koma margir sérfræðingar að því að fara yfir niðurstöðurnar, það eru 60 barnahjartalæknar sem vinna hér og allir með einhverja sérmenntun og Catherine Allan (læknirinn okkar) mun kalla þá til sem henni finnst hún þurfa að fá álit hjá.
Ég verð hjá honum hér á gjörgæslunni í nótt, við erum alltaf til skiptist hjá honum, við foreldrarnir. Þeir bara verða að finna út úr þessu svo að hann geti öðlast betri heilsu og betra líf, við öll!
Baráttukveðjur frá Boston,
Ásdís og Björgvin Arnar