Thursday, April 28, 2011

Undirbúningur fyrir Boston

Nú erum við að undirbúa okkur fyrir ferðina til Boston. Það er svo mikið sem fylgir okkur, öll lyfin, pústvél, súrefnisvél, súrefniskútar, bætiefni og svo allt þetta venjulega líka :)


Björgvin er voða hress þessa dagana og lítur mjög vel út, hann er að metta betur þó svo að hann sé ekki farinn af súrefninu ennþá. En það eru góðar fréttir þar sem það er mikilvægt að hann sé í góðu formi til að fara í svæfinguna til að auka líkurnar á að allt fari vel.

Nú teljum við niður dagana, verður gott að fara út og láta þessa snillinga vinna vinnuna sína þó svo að mikill kvíði er líka fyrir hendi þá verður bara að rannsaka hetjuna betur.

Kveðja frá mæðginunum í Svölutjörn.

ps. muna að kvitta :)



Saturday, April 16, 2011

Næstu skref -> Boston

Nú hefur Gylfi læknir farið yfir niðurstöðurnar úr tölvusneiðmyndinni með læknunum í Boston og er búið að ákveða að við förum næstu mánaðarmót til Boston í rannsóknir. Það er verið að stefna á að fara út 1. maí og koma heim 11. maí.

Björgvin fer í hjartaþræðingu, berkjuspeglun, barkaskoðun og tölvusneiðmynd. Nú er bara að vona og krossa fingur að eitthvað komi út úr þessu sem hægt er að laga svo að Björgvin geti öðlast betri heilsu.

Í seinustu viku kom góður gestur til okkar, Helga sem er með Brúðubílinn mætti til okkar og sýndi Björgvini Lilla litla og fleiri brúður. Hann var alsæll með þetta og var nú frekar feiminn við Lilla vin sinn fyrst en svo lagaðist það fljótlega.


Svo fengum við gest í dag, algjörlega óvænt, hann Björgvin Frans kom til okkar eftir að hafa verið að skemmta á barnaskemmtun hér í bæ og frétt af veikum strák sem komst ekki. Björgvin fékk einkasýningu og var ekkert smá ánægður. BF söng sjóræningjasönginn úr Söngvaborg og svo aðallagið úr Benedikt búálfur. Ótrúlega fallegt af honum að koma til okkar og lífga upp á daginn hans Björgvins.


Ég þakka vinkonum mínum úr 5dk fyrir að senda Helgu Steffensen til okkar í seinustu viku og svo líka Allý fyrir að koma með Björgvin Frans til okkar. Ástarþakkir!

Kveðja úr Svölutjörn
Ásdís og Björgvin Arnar


Sunday, April 10, 2011

Tölvusneiðmynd lokið

Seinasta fimmtudag fórum við á Barnaspítalann til að taka tölvusneiðmynd af Björgvini. Við mættum rétt fyrir hádegi og var leggur settur í hann fyrir skuggaefnið og svo var honum gefið kæruleysilyf til að hann myndi sofna. Í svona myndatöku þarf maður að vera grafkyrr og svona litlir grallarar geta það ekki sjálfir.


Við fáum svo út úr þessu á þriðjudaginn. Gylfi læknir á pantað símtal við lækninn okkar í Boston til að ræða niðurstöðurnar. Að hans sögn þá er ekki spurning um hvort heldur hvenær við förum til Boston.

Það er mikill léttir að það sé verið að skoða þetta allt saman, reyna að komast til botns í af hverju hann þarf á súrefni að halda og af hverju hann sé svona viðkvæmur, að hann megi ekki fá kvef án þess að þurfa á súrefni að halda.



Á leikskólanum Holti er frábært starfsfólk og komu tveir starfsmenn á deildinni hans Björgvins að heimsækja hann um daginn. Það var mikill spenningur áður en þær komu og ætlaði hann sko að sýna þeim allt dótið sitt og herbergið sitt. Magga og Ragnheiður komu og sungu með honum og léku við hann í dágóða stund. Meiriháttar að halda tengslum við leikskólann og líka að brjóta upp daginn hans hér heima.



Bjarki kom til okkar í heimsókn líka, því miður ekki með stelpurnar sínar vegna smithættu, en Björgvin var ekkert smá ánægður, búinn að vera að spyrja um hann í marga daga. Það var leikið úti í skúr í boltaleik og fleira, svaka stuð!

Olga amma og Nói komu til okkar í gær, mikið var gaman að sjá bræðurna saman og ótrúlegt hvað hann man vel eftir ömmu sinni. Olga ætlar svo að koma til okkar aftur í vikunni, áður en hún fer aftur út til Ítalíu.

Kveðja úr Svölutjörn,
Ásdís og Björgvin Arnar