Tuesday, February 15, 2011

Heima er best að vera.

Mikið var nú gott að koma heim og vera heima. Seinustu dagar hafa verið góðir og miklir fjölskyldudagar. Við höfum verið heima og fengið góða gesti í heimsókn og í mat og það besta var að Nói kom til okkar og var hjá okkur um helgina.


Á laugardaginn vorum við með mömmu og pabba í mat og horfðum svo á júró. Mikil stemmning var á kósýkvöldinu hjá okkur og Björgvin var alsæll að hafa alla svona saman.


Svo komu Eyrún og Helgi og við spiluðum, tilþrifin voru mikil eins og sést á myndinni. Vel heppnað kvöld í alla staði.


En Björgvin er samt sem áður með súrefnið ennþá, þetta ætlar að taka tíma hjá okkur í þetta skiptið. Nú er þetta komið komið á fimmtu viku. Við fórum til læknis í gær og hann fór í lungnamyndatöku sem kom mjög vel út svo að þetta hlýtur að koma hjá okkur í þessari viku. Það verður mikill munur þegar hann getur verið súrefnislaus.

Mikið slím er ofan í honum sem gerir það að verkum að hann er mjög lystarlaus, vill ekki borða neitt, nema pizzu! Ótrúlegt hvað pizzan er alltaf góð! :)

Pizzukveðja úr Svölutjörn
Ásdís og Björgvin Arnar (og Andrea Björt) 

Saturday, February 5, 2011

Komin heim!

Jæja, við fengum að fara heim af spítalanum í gær með súrefni með okkur. Það var ekkert smá gott að koma heim, þungu fargi af okkur létt. Ótrúlegt hvað mikið dót safnast saman í þessa litlu stofu á spítalanum, eins og maður hafi verið þarna í marga mánuði.

Við fengum súrefnisvél með okkur sem býr til súrefnið sjálf og því þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því að verða uppiskroppa með súrefni, algjör lúxus. Vonandi mun hann samt losna við súrefnið fljótlega, en þetta gengur ekkert smá hægt.

Björgvin varð 4 ára á fimmtudaginn og kveið mér fyrir því að hann ætti afmæli á spítalanum en úr varð að þessi afmælisdagur var alveg stórkostlegur. Hjúkkurnar og Gróa á leikstofunni og Birna í býtibúrinu hjálpuðu við að skreyta og svo var pöntuð stór og vegleg afmæliskaka.

Afmælisgestirnir voru amma, afi og Andrea Björt, Bjarki, Ragga, Hanna María og Tinna með sínar dætur. Auðvitað voru svo fullt af öðrum börnum og foreldrum á spítalanum einnig þarna.

Ekki skemmdi fyrir að íþróttaálfurinn kíkti á okkur og vakti mikla lukku. (Takk endalaust fyrir frúttís vinkonur!) Hann lék ótrúlegar listir og gaf Björgvini fullt af Latabæjardóti. Vá hvað börnin voru glöð og Björgvin sagði svo um kvöldið þegar hann var að fara að sofa, "Mamma, æði dagur" og brosti.
















Þegar maður heyrir svona er tilgangnum náð og við sofnuðum sæl og glöð :)

Nú erum við bara að bíða eftir að hann lagist og losni við súrefnið. Það getur alveg tekið vikuna, en vonandi ekki lengur.

Ásdís og Björgvin Arnar afmælisbarn.